„Þetta er ólýsanlegt,“ sagði Orri Gunnarsson leikmaður Stjörnunnar í samtali við mbl.is eftir að hann varð Íslandsmeistari í körfubolta með uppeldisfélaginu eftir sigur á Tindastóli í oddaleik á Sauðárkróki í kvöld.
„Ég er uppalinn í Stjörnunni og við höfðum aldrei unnið þetta. Það er ógeðslega sætt að vinna. Ég fór út fyrir síðasta tímabil en vildi koma til baka og sagði við alla að ég ætlaði að taka þennan titil og það getur enginn gert neitt við því. Ég gerði það,“ sagði hann ákveðinn.
Mikil spenna var í leiknum og hefði sigurinn allt eins getað dottið hinum megin. Þrátt fyrir það leið Orra vel.
„Mér leið vel. Bæði lið voru þreytt og það var ekkert víst að þessi þriggja stiga skot færu ofan í hjá þeim. Mér leið ekki vel í fyrri hálfleik en í seinni leið mér vel,“ sagði hann.
Orri spilaði töluvert eftir að hann fékk sína fjórðu villu og var því lengi á hálum ís.
„Baldur sagði mér að drulla mér inn á. Ég sagði honum að ég væri á fjórum en hann sagði mér bara samt að fara inn á. Ég spilaði mína vörn og ef fimmta villan kæmi þá var það bara þannig. Hún kom svo þegar ég sló hann óvart í andlitið,“ sagði hann.
En hvernig fagnar maður Íslandsmeistaratitli með uppeldisfélaginu?
„Úff. Ég fer með strákunum að drekka. Það má, þetta er búið“ sagði Orri kampakátur.