Besti leikmaður Tindastóls í tapleiknum gegn Stjörnunni í kvöld var Sigtryggur Arnar Björnsson. Hann virtist njóta sín mest í Stólaliðinu og þola pressuna betur en aðrir. Hann skoraði 18 stig í leiknum og stal tveimur boltum í blálokin, sem hefðu getað bjargað þeim en staðan var 80:77 þegar allt var undir í restina.
Sigtryggur Arnar kom í viðtal skömmu eftir að hafa faðmað andstæðing sinn, Ægi Þór Steinarsson, heitt og innilega eftir að hafa fengið silfurverðlaunapeninginn sinn. Kappanum var orðavant og átti hann ansi erfitt með sig.
„Það er alltaf súrt að tapa en til hamingju bara Stjörnumenn og Stjörnuliðið og allt góða fólkið í Garðabænum.“
Þetta hefði getað orðið fullkominn dagur. Veðrið dásamlegt úti og bærinn hreinlega iðandi af spenningi.
„Þetta var langur dagur en góður. Hann endaði bara illa.“
Hvað telur þú að hafi riðið baggamuninn í leiknum? Þið eruð yfir stærstan hluta hans og mest ellefu stigum yfir. Svo hreinlega tóku Stjörnumenn þetta á endasprettinum.
„Þetta er bara körfubolti, það eru sveiflur og áhlaup. Það er bara það sem gerðist í þessum leik. Ég bara veit það ekki.“
Það munaði þremur stigum heillengi í lokin og þið voruð eins og kötturinn með níu líf. Ykkur tókst að stela þremur boltum en náðuð ekki að skora.
„Ég nenni ekki að pæla í þessum leik, þú afsakar.“
Þú ferð þá bara heim að knúsa strákinn.
„Já, það er einmitt það sem mig langar að gera núna.“
Er búið að finna nafn á drenginn?
„Já það er komið nafn og það styttist í nafnaveislu. Það er leyndarmál og þú færð ekki að vita neitt“ sagði Sigtryggur Arnar og brosti blítt, eins og honum einum er lagið.