„Ef maður lítur til baka þá hefði ég sætt mig við þetta,“ sagði Hlynur Elías Bæringsson eftir að hann varð Íslandsmeistari í körfubolta, 42 ára gamall, með Stjörnunni eftir sigur á Tindastóli í oddaleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Leikurinn var sá síðasti á ferlinum hjá Hlyni.
„Það hefur ýmislegt gerst á leiðinni, vonbrigði og gleði í bland. Ég hefði alltaf tekið þessu,“ bætti Hlynur við en hann hefur átt ansi langan og góðan feril.
En hvernig leið honum á lokakaflanum og þegar leiknum lauk?
„Þetta var skrítið þegar við vorum fimm stigum yfir og sá Basile skjóta, þá var ég ekki viss um að þetta væri komið. Svo kom blanda af alsælu og létti. Þetta er jafnmikill léttir og þetta er gleði. Þetta er ógeðslega erfitt andlega og líkamlega,“ sagði Hlynur og hélt áfram:
„Í leikhléi fimm mínútum fyrir leikslok fannst mér við nánast komnir með þetta. Þeir voru orðnir staðir. Þá gátum við stokkið á þá. Á sama tíma var þetta smá erfitt hjá okkur líka. Svo leist mér ekkert á byrjunina,“ sagði hann.
Rosaleg læti voru í stúkunni, eins og alltaf á Sauðárkróki. Hlynur var þakklátur að fá að enda ferilinn í Skagafirðinum.
„Ég er þakklátur að fá að gera þetta á móti Tindastóli. Körfuboltinn á Íslandi hefur ekki alltaf verið svona. Tindastóll og þeirra menning á risastóran þátt í því. Þetta smitast út um allt land.
Fyrsti körfuboltaleikurinn minn var líka í Skagafirði. Það var 1995 í Varmahlíð. Benni kom að þjálfa og ég rétt komst í liðið. Það var einhver sem hætti og ég fékk að vera síðasti maður inn,“ sagði hann léttur.
Hlynur þarf nú að finna sér nýtt áhugamál, enda frítíminn skyndilega orðinn mun meiri
„Ég þarf að finna nýjan tilgang og eitthvað nýtt til að vera spenntur fyrir. Ég hef gert þetta allt mitt líf. Það verður flókið að finna eitthvað í staðinn. Þetta kemur aldrei aftur,“ sagði Hlynur.