Ótrúlega stolt af litla bróður

Lovísa Björt í Stjörnutreyjunni í sólinni á Króknum.
Lovísa Björt í Stjörnutreyjunni í sólinni á Króknum. mbl.is/Jóhann Ingi

„Mér líður mjög vel,“ sagði Lovísa Björt Henningsdóttir, landsliðskona í körfubolta og systir landsliðsmannsins Hilmars Smára Henningssonar, í samtali við mbl.is á Sauðárkróki í dag.

Lovísa er mætt til að styðja bróður sinn, sem leikur með Stjörnunni, í oddaleik liðsins við Tindastól í úrslitum Íslandsmótsins.

„Ég er ekkert það stressuð og ég veit Hilmar er vel peppaður og allt liðið er vel stillt. Það þýðir ekkert að stressa sig,“ sagði Lovísa, sem er hrifin af stemningunni í Skagafirði.

„Þetta er langskemmtilegasti útivöllurinn. Stuðningsfólkið er gjörsamlega til fyrirmyndar. Stemningin þegar þú keyrir inn í bæinn er geggjuð. Þetta eru tvö frábær lið og það er ekki hægt að biðja um betri úrslitaleik. Að fá fimm leiki hjá konum og körlum er geggjað,“ sagði hún.

Lovísa Björt, númer fimm, varð sjálf Íslandsmeistari á dögunum.
Lovísa Björt, númer fimm, varð sjálf Íslandsmeistari á dögunum. Eggert Jóhannesson

Lovísa varð fyrr í mánuðinum Íslandsmeistari með Haukum. Hún lék hins vegar nær ekkert á leiktíðinni þar sem hún sleit krossband strax í upphafi móts.

„Ég spilaði ekki úrslitakeppnina hjá mér þar sem ég sleit krossband og það var mjög erfitt. Mér finnst ekkert mál að spila leiki en þegar ég þarf að vera á bekknum er það erfitt. Það er stress rétt fyrir leik að horfa á bróðir minn en ekki eins mikið og fyrir mína leiki.“

Hilmar Smári hefur spilað gríðarlega vel með Stjörnunni á leiktíðinni og á sinn þátt í að liðið er einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum.

„Ég fyllist stolti. Það er ótrúlega gaman að sjá hann verða betri og betri. Hann er búinn að blómstra í þessu úrslitaeinvígi og var stigið feilspor. Hann er geggjaður og ég er ótrúlega stolt,“ sagði hún.

Hilmar Smári Henningsson hefur átt glæsilegt úrslitaeinvígi.
Hilmar Smári Henningsson hefur átt glæsilegt úrslitaeinvígi. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Eins og áður hefur komið fram er Lovísa leikmaður Hauka. Hún var hins vegar í stjörnutreyju merkta bróður sínum á Króknum í dag.

„Ég er í fyrsta skipti í Stjörnutreyju núna. Ég hef átt treyjur frá öðrum liðum sem hann hefur verið í, eins og Bremerhaven í Þýskalandi. Haukarnir hljóta að skilja þetta. Við urðum Íslandsmeistarar og ég hlýt að fá smá svigrúm til að styðja bróðir minn í dag,“ sagði Lovísa, sem vonast til að vera með frá byrjun á næsta tímabili.

„Ég verð tilbúin eftir haustið og vonandi verð ég klár í að spila í september,“ sagði Lovísa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert