Benedikt Guðmundsson, þjálfari körfuboltaliðs Tindastóls, þurfti að sjá á eftir Íslandsmeistaratitlinum í hendur Stjörnumanna í kvöld. Liðin spiluðu hreinan úrslitaleik um titilinn og eftir jafnan og spennandi leik stóð Stjarnan uppi sem sigurvegari. Leiknum lauk 82:77 en Stjarnan vann lokakaflann 13:5.
Þjálfarinn var eðlilega súr eftir leik en hafði sínar skýringar á hvað klikkaði.
„Þetta fór bara frá okkur í lokaleikhlutanum. Við vorum að leiða fram að því en gátum ekki keypt okkur stig þegar allt var undir. Það var sama hvort það var sniðskot undir körfunni eða þristur. Við skoruðum bara ekki.“
Maður hélt að þið mynduð lifa þetta af þrátt fyrir aragrúa af vítum sem klikkuðu og líka galopin færi undir körfunni. Þetta taldi svo allt í lokin og varð ykkur dýrt.
„Já ég meina, við erum að skjóta rétt yfir 40% af vítalínunni. Það eru nokkrir fleiri þættir sem við hefðum þurft að gera betur. Ég er ánægður með hvað við fráköstuðum vel og náðum að laga úr síðasta leik. Við komum boltanum bara ekki í körfuna. Maður fékk það á tilfinninguna þarna í lokin að þetta ætti bara að enda Stjörnumegin. Við fengum galopið þriggja stiga skot til þess að jafna. Það gekk ekki. Náðum boltanum strax aftur en hentum honum út af. Örlögin voru ekki með okkur núna.“
Þið stáluð þremur boltum í stöðunni 80:77 í lokin og fáið færin.
„Já, já. Þetta átti ekki að ganga. Stundum er það bara þannig. Þetta er mikið svekkelsi.“
Það hefði orðið stærsta partí landsins ef ykkur hefði tekist að landa þessu hér í Síkinu.
„Já, mér fannst við vera með þetta hérna. Það var bara lok á körfunni hinum megin. Þetta fer þar bara. Við ætluðum okkur gullið. Stjarnan tók það núna og til hamingju Stjarnan.“
Þið urðuð deildarmeistarar. Það telur vissulega þótt þetta svíði.
„Manni líður ekki þannig núna fyrst við ætluðum okkur þennan.“
Er eitthvað farið að huga að næsta tímabili?
„Við erum ekkert farin að huga að því. Nú verða menn að sleikja sárin eitthvað á næstunni. Svo kemur bara í ljós hvað verður“ sagði þjálfarinn að lokum.