Indiana Pacers er komið í 2:1 gegn Oklahoma City Thunder í úrslitaeinvígi bandarísku NBA-deildar karla í körfubolta eftir sigur, 116:107, í Indiana í nótt.
Fjóra sigra þarf til að verða NBA-meistari en næsti leikur fer aftur fram í Indiana aðfaranótt laugardags.
Leikurinn var mjög jafn og skiptust liðin á að vera með forystu en fyrir þennan leik hafði Oklahoma verið með forystuna nánast allan tímann, þrátt fyrir að Indiana hafi unnið fyrsta leikinn.
Indiana var fjórum stigum yfir í fyrri hálfleik en varamennirnir Obi Toppin, T.J. McConnell og sérstaklega Bennedict Mathurin komu með mikla orku inn í heimaliðið.
Oklahoma var þó betra í þriðja leikhluta og vann hann með níu stigum. Shai Gilgeous-Alexander hrökk almennilega í gang þá og virtist leikurinn vera snúast gestunum í vil.
Fjórði leikhluti var hins vegar eign Indiana-manna sem voru miklu ákveðnari. Mathurin hélt áfram sínu skriði og Tyrese Haliburton stýrði sóknarleiknum. Þá voru Indiana-menn mjög ákveðnir í vörn og gátu Gilgeous-Alexander og Jalen Williams lítið gert síðustu mínúturnar.
Indiana vann því sannfærandi níu stiga sigur og heldur áfram að koma á óvart gegn þessu sterku liði Oklahoma.
Haliburton átti stórleik með 22 stig, níu fráköst og ellefu stoðsendingar en Mathurin skoraði mest eða 27 stig ásamt því að taka fjögur fráköst og gefa eina stoðsendingu.
Gilegous-Alexander var atkvæðamestur hjá Oklahoma með 24 stig, fjögur fráköst og átta stoðsendingar. Jalrn Williams skoraði þá 26 stig, tók sex fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.