Bróðir Borche tekinn við ÍR

Pance Ilievski er tekinn við kvennaliði ÍR.
Pance Ilievski er tekinn við kvennaliði ÍR. Ljósmynd/ÍR

Norður-Makedóninn Pance Ilievski hefur verið ráðinn nýr þjálfari kvennaliðs ÍR í körfuknattleik. Skrifaði hann undir þriggja ára samning.

Pance er bróðir Borche Ilievski, sem þjálfar karlalið ÍR í körfuknattleik.

Kvennalið ÍR hafnaði í neðsta sæti 1. deildar á síðasta tímabili og leikur þar áfram á því næsta.

Pance er reyndur þjálfari og fyrrverandi atvinnumaður í körfuknattleik. Hann kom fyrst til Íslands árið 2006 og lék þá með KFÍ, nú Vestra, í 1. deild. Hann þjálfaði einnig yngri flokka í Bolungarvík og tók svo við meistaraflokki kvenna hjá KFÍ tímabilið 2010 til 2011. Síðan þá hefur hann einnig stýrt kvennaliðum bæði hér á landi og erlendis.

Mikil spenna í Breiðholtinu

„Pance er menntaður sjúkraþjálfari sem nýtist vel til að byggja upp heilbrigðan og öflugan hóp leikmanna. Hann þekkir leikinn afar vel, kemur úr mikilli körfuboltafjölskyldu og leggur áherslu á fagmennsku, aga og sterka liðsheild.

Það ríkir mikil spenna í Breiðholtinu fyrir komu hans og við hlökkum til að sjá hann skrifa sinn eigin kafla í sögu ÍR kvenna,“ sagði í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild ÍR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert