„Sýndi mér að þarna var maður sem þótti vænt um mig“

Gregg Popovich og Dejounte Murray.
Gregg Popovich og Dejounte Murray. Ljósmynd/Samsett/AFP

Körfuboltamaðurinn Dejounte Murray hefur greint frá því að Gregg Popovich, sem þjálfaði San Antonio Spurs í NBA-deildinni í tæpa þrjá áratugi, hafi ætlað að flytja móður hans til San Antonio með eigin peningum eftir að hún varð fyrir skotárás.

Murray hóf feril sinn í NBA-deildinni með San Antonio eftir að hafa verið valinn af félaginu í nýliðavalinu árið 2016. Móðir hans bjó þá í Seattle.

„Þetta var svo klikkað. Fjöldi fólks sem stendur mér næst veit þetta ekki einu sinni. Fólk úr fjölskyldu minni, vinir og fólk nákomið mér sem er í fangelsi. Pop vildi ekki að ég færi til Seattle. Þegar ég var valinn þá vildi ég ekki fara til Seattle.

Þetta sýndi mér að þarna var maður sem þótti vænt um mig. Þetta var maður sem vildi að ég næði mér á strik í lífinu fyrst og svo sem körfuboltamaður. Hann er svo sannur,“ sagði Murray um Popovich í hlaðvarpsþættinum The Pivot Podcast.

„Nei, ekki með hans peningum“

Vísaði hann þar til magnaðrar sögu sem tengdist móður Murray.

„Hann reyndi að flytja móður mína til San Antonio með sínum eigin peningum eftir að hún var skotin. Mamma var skotin í fótinn á tímabilinu þegar ég var nýliði. Hann hringdi sjálfur í hana.

Án þess að ég vissi af því. Ég fékk bara að vita af því eftir að hann hafði hringt í hana. „Við viljum flytja þig hingað. Nei, ekki með hans peningum, með mínum peningum.“ Það hljómar eins og gaur sem þykir vænt um mig og elskar mig, ekki satt?“ velti hann fyrir sér.

Murray lék með San Antonio undir stjórn Popovich frá 2016 til 2022 og er nú leikmaður New Orleans Pelicans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert