Indiana Pacers og Oklahoma City Thunder munu mætast í oddaleik um bandaríska NBA-meistaratitil karla í körfubolta eftir stórsigur þess fyrrnefnda, 108:91, í sjötta leik liðanna í Indiana í nótt.
Fjóra sigra þarf til að verða meistari en í deildarkeppninni hafnaði Oklahoma í fyrsta sæti Vesturdeildarinnar með yfirburðum en Indiana hafnaði í fjórða sæti Austurdeildarinnar.
Leikurinn var jafn framan af en um miðjan annan leikhluta fór Indiana að ná góðu forskoti með Tyrese Haliburton, sem var ansi tæpur fyrir leik, fremstan í flokki.
Ekkert var skorað fyrstu fjórar mínúturnar í seinni hálfleik og tókst Oklahoma ekki að skora fyrr en þegar meira en fimm mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Indiana náði góðu forskoti á þeim tíma og var Oklahoma aldrei líklegt að ná að minnka muninn almennilega.
Indiana vann að lokum sautján stiga sigur.
Pascal Siakam skoraði 16 stig, tók 13 fráköst og gaf þrjár stoðsendingar í liði Indiana. Þá skoraði Obi Toppin 20 stig og Andrew Nembhard 17. T.J. McConnell heldur áfram að vera drjúgur fyrir Indiana en hann skoraði 12 stig, tók níu fráköst og gaf sex stoðsendingar.
Hjá Oklahoma skoraði Shai Gilgeous-Alexander 21 stig, tók fjögur fráköst og gaf tvær stoðsendingar.