Gamla ljósmyndin: Í úrslitum NBA

mbl.is/Sigurður Valgeirsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Einhvern tíma hefði það þótt saga til næsta bæjar að fyrrverandi leikmaður á Íslandsmótinu í körfuknattleik væri þátttakandi í úrslitarimmunni í amerísku NBA-deildinni. Sú staða er þó uppi um þessar mundir.

Oklahoma City Thunder og Indiana Pacers eiga eftir að leika hreinan úrslitaleik aðfaranótt mánudagsins um sigurinn í NBA þar sem staðan er 3:3 í úrslitunum. Í þjálfarateymi Indiana Pacers er Jenny Boucek fyrrverandi leikmaður Keflavíkur. 

Veturinn 1997 - 1998 var Boucek á Íslandi og varð tvöfaldur meistari með Keflavík. Boucek var hörkuleikmaður. Skoraði hún rúm 20 stig að meðaltali í leik og var valin besti erlendi leikmaðurinn á lokahófi KKÍ. 

Meðfylgjandi mynd tók Sigurður Valgeirsson af Boucek á fjölum Laugardalshallarinnar eftir sigur Keflavíkur á ÍS í bikarúrslitaleiknum. Með Boucek á myndinni er ungur stuðningsmaður Keflavíkur, Ingimundur Guðjónsson. Birtist myndin á bls 2 í íþróttablaði Morgunblaðsins hinn 17. febrúar árið 1998. 

„Íslendingar, og þá sérstaklega Keflvíkingar, hafa gert svo mikið fyrir mig og ég veit ekki hvernig get endurgoldið þeim en vona að ég hafi gert eitthvað þeim til ánægju í úrslitaleiknum. Þetta er einstakt land og þá er ég ekki bara að tala um körfuboltann heldur þessa miklu gleði hér,“ sagði Boucek meðal annars í samtali við Skúla Unnar Sveinsson í Morgunblaðinu en hún skoraði 27 stig í úrslitaleiknum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert