Þór Akureyri heldur áfram að bæta við hóp sinn fyrir komandi tímabil í fyrstu deild karla í körfubolta. Í gær tilkynnti félagið að það hefði samið við þrjá öfluga leikmenn.
Eiríkur Jónsson kemur til liðsins frá Skallagrími en hann er 17 ára bakvörður. Hann var með 13,3 stig, 4,6 fráköst og 4,5 stoðsendingar að meðaltali í leik í fyrstu deild karla á síðasta tímabili.
Axel Arnarsson er 18 ára bakvörður sem kemur til Þórs frá Tindastóli. Hann spilaði ekki mikið í stjörnum prýddu Tindastólsliði á síðasta tímabili en hann er efnilegur leikmaður sem verður gaman að fylgjast með hjá Þór á næsta tímabili.
Þá kemur til liðsins Pietro Ballarini sem er 21 árs ítalskur bakvörður sem spilaði síðast í akademíu Lions í Emilia Romagna í heimalandinu.
Þessir þrír leikmenn munu styrkja Akureyrarliðið mikið fyrir komandi tímabil og er liðið til alls líklegt í fyrstu deildinni.