Oklahoma meistari í fyrsta sinn

Shai Gilgeous-Alexander heldur á bikarnum.
Shai Gilgeous-Alexander heldur á bikarnum. AFP/Matthew Stockman

Oklahoma City Thunder er bandarískur NBA-meistari karla í körfubolta í fyrsta sinn eftir sigur á Indiana Pacers, 103:91, í oddaleik liðanna í Oklahoma-borg í nótt.

Þetta var sjöundi leikur liðanna og Oklahoma vinnur því samanlagt 4:3. Shai Gilgeous-Alexander fór enn einu sinni fyrir sínum mönnum og skoraði 29 stig, tók fimm fráköst og gaf tólf stoðsendingar.

Fyrsti leikhluti var nokkuð jafn en Indiana byrjaði betur þökk sé frábærum tilþrifum frá Tyrese Haliburton sem setti þrjá þrista á fyrstu mínútunum.

Eftir sex mínútur breyttist þó öll stemningin í leiknum þegar Haliburton sleit hásin eftir að hafa runnið í sókn. Hann fór grátandi af velli og leikmenn beggja liða sem og stuðningsmenn voru slegnir. 

Tyrese Haliburton liggur sárþjáður eftir.
Tyrese Haliburton liggur sárþjáður eftir. AFP/Justin Ford

Oklahoma vann leikhlutann með þremur stigum, 25:22.

Gestirnir frá Indiana reyndust þó seigir í öðrum leikhluta og héldu vel í við heimamenn. Undir lok leikhlutans var Indiana komið stigi yfir, 48:47, og fór því stigi yfir til búningsklefa.

Oklahoma-menn gengu þá á lagið í þriðja leikhluta. Þeir voru grimmari í vörn og sókn og tapaði Indiana boltanum átta sinnum. 

Shai Gilgeous-Alexander stillir upp í skot.
Shai Gilgeous-Alexander stillir upp í skot. AFP/Justin Ford

Oklahoma var komið í þrettán stiga forskot, 81:68, þegar leikhlutanum lauk og því í góðum málum fyrir fjórða og síðasta.

Oklahoma bætti einungis við forystu sína í byrjun fjórða leikhluta og vann öruggan sigur.

Jalen Williams skoraði 20 stig, Chet Holmgren skoraði 18 og Alex Caruso og Cason Wallace skoruðu tíu hvor í liði Oklahoma.

Bennedict Mathurin var atkvæðamestur í liði Indiana með 24 stig, þrettán fráköst og þrjár stoðsendingar. Þá skoruðu Pascal Siakam og T.J. McConnell 16 stig hvor. 

Jalen Williams fagnar í nótt.
Jalen Williams fagnar í nótt. AFP/Justin Ford
Alex Caruso og Isaiah Hartenstein fagna í leikslok.
Alex Caruso og Isaiah Hartenstein fagna í leikslok. AFP/Matthew Stockman
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert