Oklahoma City Thunder vann fyrsta meistaratitil liðsins í NBA-deildinni í körfuknattleik eftir sigur á Indiana Pacers í oddaleik, 103:91, í Oklahoma á sunnudagskvöld. Thunder var besta liðið í deildinni allt tímabilið og hafði það á endanum þótt Indiana hafi barist til síðustu mínútu í rimmunni.
Indiana byrjaði mjög vel og Tyrese Haliburton, stjarna liðsins, skoraði þrjár þriggja stiga körfur á skömmum tíma sem leiddi til þess að þjálfari Thunder, Mark Daigneault, tók leikhlé. Eftir það var augljóst að Haliburton myndi ekki eiga auðvelt með að taka þriggja stiga skot. Leikmenn Thunder eltu hann langt út á völlinn.
Það leiddi til þess að Haliburton reyndi að komast fram hjá varnarmanni Thunder á sjöundu mínútu, en þá datt hann, enda hafði hann átt í meiðslum í hægri kálfa síðan í fimmta leik. Þar með var kvöldi hans lokið og allt í einu var komin ný mynd á leikinn. Allt lítur út fyrir að hann hafi slitið hásin.
Þrátt fyrir þessi meiðsl var það Indiana sem brást betur við og samherjar Haliburtons gáfu hvergi eftir og fóru í búningsklefana í hálfleik með eins stigs forystu, 48:47.
Þetta var í fyrsta sinn í níu ár sem lokarimman fór í oddaleik. Maður hefur fylgst með slatta af þessum sjö leikja rimmum sem eru ávallt jafnar, en ekki alltaf skemmtilegar á að horfa. Til þess er spennan allt of mikil.
Heimamenn náðu loks góðum kafla um miðbik þriðja leikhluta, komust í 65:56, og fór nú hin fræga pressa Thunder að segja til sín. Hún leiddi til þess að Indiana fór að tapa knettinum í hvívetna og það leiddi til 18 ódýrra stiga fyrir Oklahoma. Eftir það var forystan aldrei í hættu þrátt fyrir frábæra baráttu Indiana.
Spennan var gríðarleg. Ótrúleg barátta um hverja sendingu, skot eða frákast. Heimamenn sýndu hins vegar að þrátt fyrir ungan hóp gátu þeir reitt sig á það sem kom þeim í þennan leik eftir barninginn allt tímabilið. Hreint út sagt frábær varnarleikur.
Þessi rimma setti góðan punkt á skemmtilega úrslitakeppni þar sem spár sérfræðinga fóru út um þúfur hvað eftir annað, þar á meðal okkar.
Fyrir sjötta leik liðanna virtist augljóst að Oklahoma væri að taka völdin og þegar hægri kálfi Haliburtons, stjörnu Indiana, gaf eftir í fimmta leik virtist sem miskunnarlaus varnarleikur Thunder væri að gera gæfumuninn. Það reyndist þó ekki og Haliburton og félagar rústuðu Thunder í sjötta leiknum á fimmtudag.
Indiana var lið sem fæstir bjuggust við að myndi blanda sér í toppbaráttuna í ár, jafnvel eftir að liðið tók góðan kipp eftir slæma byrjun í upphafi. Það hélt þó góðum dampi restina af deildakeppninni.
Þegar í úrslitakeppnina kom var liðið bæði heppið (þrír af fimm bestu leikmönnum Cleveland Cavaliers voru meiddir gegn Pacers) og það vann mikilvæga leiki gegn Cleveland og New York á hreint ótrúlegum endasprettum þegar þeir virtust með tapaða leiki. Svo virtist því sem einhverjir töfrar væru yfir liðinu.
Þeir lentu hins vegar gegn hakkavél Oklahoma í vörninni og það reyndist á endanum einum hjalla of mikið.
Þjálfari Indiana, Rick Carlisle, var hreykinn eftir leikinn. „Það að við skyldum vinna lokaleikhlutann var eins og skáldsaga. Það var merki um hvað okkar hópur stendur fyrir. Engin uppgjöf hvað sem á gekk og þeir börðust allt til loka. Ég er mjög hreykinn af átakinu sem þeir sýndu í kvöld.“
Umfjöllunina má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.