Arnar Guðjónsson, þjálfari Tindastóls, var ánægður með dramatískan spennusigur á Val í 1. umferð Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld. Spurður út í leikinn sagði Arnar þetta:
„Gott að ná að loka þessu í restina. Mér fannst við spila vel í fyrri hálfleik en ekki jafn vel í seinni hálfleik. Við þurfum að vera grimmari í fráköstum og við þurfum að koma í veg fyrir að verða staðir í sóknarleik okkar eins og vill oft gerast á móti Valsmönnum.“
Valsmenn eru með gott varnarlið en þið náið samt 17 stiga forskoti í fyrri hálfleik og það leit út fyrir að þið væruð að fara keyra yfir þá í leiknum en síðan gerist eitthvað og þeim er boðið upp á annan dans í seinni hálfleik.
„Þeir gera mjög vel í að koma sér á vítalínuna. Þeir skjóta 38 vítum á meðan við skjótum 14 hinum megin. Við náðum eiginlega aldrei neinu tempói eða hraða í leikinn því þeir eru bara að skjóta vítum allan leikinn.
Síðan mega þeir eiga það að þegar þeir klikkuðu á vítunum sínum þá voru þeir mjög duglegir að ná sóknarfráköstum. Síðan frjósum við bara sóknarlega. Þetta er svona dýptin í einhverri greiningu á þessum leik.
Síðan má ekki taka það af Valsmönnum að í seinni hálfleik þá gerðu þeir hlutina bara að mörgu leyti betur en við. Við fórum illa með mörg góð skotfæri. Mér fannst við eiga að fá fleiri vítaskot sem við fengum ekki.“
Er þreyta í þínum mönnum eftir ferðalög helgarinnar?
„Nei!“
Bannað að skrifa hluta af frammistöðunni á þreytu?
„Ég meina við unnum lið á útivelli sem er búið að verða Íslandsmeistarar nokkrum sinnum, eru bikarmeistarar og eru með landsliðsmenn. Þetta er besta lið deildarinnar og við unnum þá á útivelli. Við vorum ekkert þreyttir og það skrifast ekki neitt á það.
Við bara unnum gott lið á útivelli í kvöld. Ég er mjög glaður fyrir það og við erum ekki þreyttir eftir að hafa spilað einn leik í útlöndum,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is.