„Það er alltaf fúlt að tapa leikjum. Sérstaklega af því við vorum komnir ofan í holu hérna í fyrri hálfleik en gerum vel í að koma til baka og koma okkur í stöðu til að eiga möguleika á að vinna hérna í lokin.
Við töpum bara hérna 50/50 leik eins og gerist stundum í körfuboltanum. Tindastóll gerði vel í lokin,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari karlaliðs Vals í körfubolta, í samtali við mbl.is eftir naumt tap gegn Tindastóli í 1. umferð Íslandsmóts karla í körfubolta.
Valsmenn lentu 17 stigum undir í fyrri hálfleik sem þeir söxuðu niður í 10 stig fyrir hálfleik. Valsmenn áttu síðan frábæran þriðja leikhluta sem kom þeim formlega inn í leikinn að nýju. Aðspurður að því hvort þriðji leikhlutinn hafi verið sá besti í leik Vals sagði Finnur þetta:
„Já, kannski. Við náum bara að koma okkur aftur inn í þennan leik með einhverri hörku og baráttu. Það er samt svo margt sem við þurfum að verða betri í bæði sóknarlega og varnarlega. Svo þurfum við að læra betur á hvorn annan. Án þess að ég sé að koma með afsakanir þá er þetta talsvert breytt lið og Lazar er að spila sinn fyrsta leik. Við þurfum að læra fljótt og gera betur.“
Er eitthvað sem kemur þér á óvart varðandi leik andstæðingsins í kvöld?
„Já, að Taiwo Badmus var meiddur. En við sáum það strax. Þeir eru bara góðir og með mjög reynslumikið lið sem er vel þjálfað af Arnari og co. Þeirra nýjasti leikmaður, Ivan, virðist bara passa mjög vel þarna inn. En það er fúlt að við höfum ekki náð að nýta tækifærið þegar við komumst í séns á að taka þetta hérna í lokin.“
Var þetta hrein og bein óheppni að þið klárið þetta ekki eða var það getumunur á liðunum?
„Nei, mér finnst alltaf ódýrt að tala um óheppni. Körfuboltaleikir vinnast yfirleitt á því að einhver geri eitthvað vel og þeir gerðu það í lokasókn sinni og því fór sem fór. Þeir voru bara aðeins betri en við í lokin.“
Hvernig finnst þér þínir menn vera að koma út eftir þennan fyrsta leik í deildinni?
„Fínt að fá svör við ýmsu. Margt jákvætt sem við tökum út úr þessum leik og margt sem við þurfum að gera betur. En fyrst og fremst hlakka ég bara til að vinna með þessum hópi og sjá okkur vaxa sem lið. Vonandi náum við bara að vinna helling af leikjum og koma okkur í góða stöðu fyrir úrslitakeppnina,“ sagði Finnur í samtali við mbl.is.