Stjarnan hafði betur gegn Val, 3:1, á útivelli í Bestu deild kvenna í fótbolta á Hlíðarenda í kvöld.
Stjarnan fór upp fyrir Val og Víking með sigrinum og upp í fjórða sæti þar sem liðið er með 31 stig. Valur er í sjötta með 28.
Stjörnukonur byrjuðu mun betur og sóttu mikið framan af leik. Það skilaði sér í fyrsta marki leiksins á 29. mínútu þegar Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir skoraði af stuttu færi eftir sendingu frá Margréti Leu Gísladóttur.
Valur svaraði af krafti og Jordyn Rhodes náði í víti tveimur mínútum síðar. Anna Rakel Pétursdóttir fór á punktinn en Bridgette Skiba varði örugglega frá henni en spyrnan var slök og nánast beint á markið.
Stjarnan hélt áfram að sækja eftir vítið og Snædís María Jörundsdóttir kom gestunum í 2:0 á 41. mínútu þegar hún slapp í gegn eftir sendingu frá Birnu Jóhannsdóttur og skoraði.
Tveimur mínútum síðar minnkaði Jordyn Rhodes muninn með marki af stuttu færi eftir að Jasmín Erla Ingadóttir fékk boltann í sig eftir hreinsun. Reyndist það síðasta mark fyrri hálfleiks og var staðan í leikhléi 2:1.
Stjarnan byrjaði seinni hálfleikinn betur og Snædís María gerði sitt annað mark og þriðja mark Stjörnunnar á 52. mínútu eftir fyrirgjöf frá Birnu.
Leikurinn róaðist töluvert eftir það en Stjörnukonur voru áfram líklegri. Mörkin urðu hins vegar ekki fleiri.