Valur og Tindastóll mættust í úrvalsdeild karla í körfubolta á Hlíðarenda í kvöld og lauk leiknum með sigri Tindastóls 87:85.
Var um að ræða leik í fyrstu umferð deildarinnar sem var frestað á laugardag þar sem Tindastóll festist í München á ferðalagi sínu til Íslands.
Það var mikið jafnræði á liðunum í fyrsta leikhluta og munurinn aldrei meiri en sex stig sem Tindastóll náði í stöðunni 25:19. Í öðrum leikhluta sýndu Skagfirðingar að þeir væru ekkert að leika sér og náðu upp 17 stiga forskoti í stöðunni 38:21 og höfðu Valsmenn þá ekki enn skorað stig í öðrum leikhluta.
Valsmenn komu með ágæt áhlaup á Tindastól og minnkuðu muninn niður í átta stig, 38:30 fyrir Tindastól. Þá byrjuðu Skagfirðingar bara aftur og byggðu upp 14 stiga forskot sem Valsmenn náðu að saxa niður í tíu stig fyrir hálfleik.
Frank Aron Booker skoraði 11 stig og tók fjögur fráköst fyrir Val í fyrri hálfleik.
Ivan Gavrilovic var grimmur fyrir Tindastól í fyrri hálfleik og skoraði hann 13 stig, tók þrjú fráköst og gaf eina stoðsendingu. Ragnar Ágústsson tók sex fráköst í fyrri hálfleik og gaf Dedrick Deon Basile átta stoðsendingar fyrir Tindastól.
Staðan var í hálfleik 51:41 fyrir Tindastól.
Valsmenn spiluðu frábæran þriðja leikhluta og minnkuðu muninn hægt og þétt niður í eitt stig ásamt því að fá fjöldann allan af tækifærum til að komast yfir í leikhlutanum. Það tókst ekki og endaði þriðji leikhlutinn á því að Tindastóll fór út úr honum með þriggja stiga forskot í stöðunni 64:61.
Fjórði leikhlutinn var svakalegur. Valsmenn náðu að minnka muninn niður í eitt stig í stöðunni 75:74 fyrir Tindastól. Þá komust Valsmenn í hraðaupphlaup þar sem Kristófer Acox komst í dauðafæri undir körfunni en klikkaði á ótrúlegan hátt. Skagfirðingar keyrðu þá upp völlinn og Dedrick Deon Basile setti niður þriggja stiga körfu og kom Tindastóli fjórum stigum yfir, 78:74.
Valsmenn settu niður tvö vítaskot í kjölfarið en þá mætti Basile aftur og setti þriggja stiga körfu. Staðan var 81:76 fyrir Tindastól og rétt rúmar tvær mínútur eftir af leiknum.
En Valsmenn gáfust ekki upp. Þeir jöfnuðu leikinn, 83:83, og voru 30 sekúndur eftir. Ivan Gavrilovic skoraði tveggja stiga körfu þegar 22,4 sekúndur voru eftir af leiknum. Þá tóku Valsmenn leikhlé sem skilaði því að Callum Lawson jafnaði leikinn þegar 6,5 sekúndur voru eftir af leiknum.
En Tindastólsmenn gáfust ekki upp því Dedrick Basile kláraði leikinn fyrir Skagfirðinga með layup körfu þegar tæplega tvær sekúndur voru eftir af leiknum.
Tindastóll vann því dramatískan 87:85-sigur.
Frank Aron Booker skoraði 24 stig fyrir Val og tók níu fráköst. Kári Jónsson gaf sjö stoðsendingar.
Dedrick Deon Basile skoraði 19 stig fyrir Tindastól og gaf 11 stoðsendingar. Adomas Drungilas tók 12 fráköst.