Katla Rún Garðarsdóttir, fyrirliði Keflavíkur, var að vonum ánægð með fyrsta sigur liðsins í Íslandsmóti kvenna í körfubolta eftir sigur á Hamar/Þór í kvöld. Katla var fyrst og fremst ánægð með liðsheildina þegar mbl.is spurði hana hvað hefði skapað sigur liðsins í kvöld.
„Ég er ánægð með vinnuna sem við leggjum í leikinn í dag. Við gerum þetta saman allan leikinn sem ein liðsheild. Við erum búnar að vera að vinna mikið að því allt undirbúningstímabilið að við séum að gera þetta fyrir hvor aðra og mér fannst það sjást mjög vel í dag. Það er enginn að hanga á boltanum og við gefum á leikmanninn sem er í besta færinu og það gekk upp í kvöld.“
Það sást glögglega að stemningin var góð í ykkar liði í kvöld. Það sem sást líka var að liðið var eingöngu skipað íslenskum leikmönnum. Er von á erlendum leikmanni hjá Keflavík?
„Já, ég veit samt ekki hver staðan er á því. Það er held ég verið að leita að erlendum leikmanni eða leikmönnum. Ég er bara að einbeita mér að því að spila og við nýtum allar mínútur sem við fáum og gerum okkar besta og það er fókusinn hjá okkur. Síðan verður annað bara að koma í ljós.“
Miðað við hvernig leikurinn í kvöld spilaðist þá virðist þið alveg getað séð um þetta sjálfar án erlends leikmanns, ekki satt?
„Það eru alltaf bara fimm leikmenn inni á vellinum og þessar fimm sem eru inn á leggja allt sitt í leikinn. Við erum með 12 leikmenn í hópnum og hvort sem leikmenn spila eða ekki þá eru allir mikilvægir í sínu hlutverki. Við finnum fyrir því að það eru allir að leggja sitt af mörkum og þær sem koma inn á setja allt í leikinn hverju sinni. Það er mikilvægt og á meðan það er þannig þá pælum við ekki í neinu öðru.“
Keflavík byggir nokkrum sinnum í leiknum upp mjög gott forskot á Hamar/Þór en síðan er eins og liðið haldi ekki dampi, þið missið niður forskotið og náið ekki að hrista gestina almennilega af ykkur fyrr en í fjórða leikhluta. Veistu hvað veldur því?
„Við erum að reyna spila mjög agressíft í 40 mínútur. Þetta er ekki orðið fullkomið hjá okkur en við erum að missa dampinn inn á milli. Þannig að við erum ekki að ná að halda þessari ákefð út alla leikhlutana og þá gerist eins og þú segir að við missum dampinn.
Þetta er eitthvað sem við þurfum að bæta og þegar við náum stoppum að þá þurfum við að fylgja því eftir með öðru stoppi. En það er ekkert fullkomið í október og við þróum þetta bara áfram. Við vinnum leikinn í kvöld og það er það sem skiptir máli.“
Næsti leikur hjá ykkur er á móti Ármanni sem er nýliði í deildinni. Er það ekki sýnd veiði?
„Það verður bara gaman að fara í Laugardalshöllina og prófa að spila deildarleik þar. En það er bara sama sagan og í kvöld. Sama hver er inni á vellinum þá gerum við okkar besta til að sækja sigur á móti þeim líkt og í öðrum leikjum,“ sagði fyrirliðinn Katla Rún í samtali við mbl.is.