Kátt var á hjalla í Höllinni á Akureyri þegar Pollamót Þórs í körfuknattleik fór fram um síðustu helgi. Sigurvegarar Lávarðadeildarinnar, Kefboys, fengu afar góðan liðstyrk fyrir mótið.
„Það setti skemmtilegan svip á mótið í ár að sjálfur Damon Johnson, einn besti erlendi körfuknattleiksmaður sem spilað hefur á Íslandi, mætti gagngert til landsins til þess að spila með Kefboys á Pollamóti Þórs í körfuknattleik,“ sagði í umfjöllun um mótið á heimasíðu Þórs.
Kefboys tóku sig saman og flugu Damon sérstaklega til landsins svo hann gæti tekið þátt í Pollamótinu. Vann liðið Lávarðadeildina, sem eru leikmenn 40 ára og eldri.
Lið Dagsbrúnar reyndist hlutskarpast í Pæjudeildinni (20 ára og eldri konur) og Only Hsuman vann Polladeildina (25 til 39 ára karla).
Only Hsuman var búið til í kringum hinn geðþekka bandarísk-taívanska leikmann, Wesley Hsu, sem spilaði áður með Þór Akureyri og seinna Ármanni.
