Hákon Hjartarson þjálfari Hamars/Þórs var bæði óánægður með sína leikmenn sem og dómarana þegar lið hans tapaði fyrir Keflavík í 2. umferð Íslandsmóts kvenna í körfubolta í íþróttahúsinu í Keflavík í kvöld, 102:89. Hákon hafði þetta að segja spurður út í hvað hafi valdið því að lið hans tapaði fyrir Keflavíkurkonum:
„Keflvíkingar fengu að lemja okkur eins og harðfisk. Stóru stelpurnar okkar voru bara lamdar ítrekað og leikmenn Keflavíkur sem voru minni og léttari virtust fá leyfi til þess frá dómurunum af því þær eru ekki jafn stórar eða eitthvað. Ef þetta er línan sem dómararnir ætla að setja þá verðum við bara manna okkur upp í því og taka þeim örlögum.
En hjá okkur sjálfum var margt sem fór úrskeiðis og líka hjá mér sjálfum. Við þurfum að vinna í fullt af hlutum og halda áfram.“
Hamarskonur lenda nokkrum sinnum mikið undir í leiknum en ná að koma til baka, minnka muninn niður í minnst þrjú stig í stöðunni 58:55. Alltaf þegar ykkur tekst að komast í þá stöðu að geta stolið einhverju þá gefið þið eftir. Kanntu skýringu á því?
„Nei, en þetta er bara alveg eins og í leiknum á móti Grindavík. Þar vorum við alltaf að ná þeim og síðan stígum við bara af bensíngjöfinni. Það er eins og okkur finnist bara þægilegt að vera í einhverjum rólegheitum. Allur sóknarleikurinn verður bara hægur. En við þurfum bara að halda áfram og vera með fótinn á pedalanum allan leikinn. Þessi deild er bara þannig.“
Næsti leikur er á móti Val. Valskonur töpuðu fyrir Njarðvík í kvöld. Eiga Hamarskonur einhverja möguleika gegn Val?
„Já, við þurfum að undirbúa okkur fyrir það. Valur vann Keflavík í síðustu umferð. Valskonur eru góðar og vel mannaðar. Við þurfum að halda áfram að vinna í okkar málum og bæta okkur. Það er bara okkar verkefni núna.“
Eitthvað sérstakt sem þú vilt sjá þitt lið gera betur í leiknum á móti Val?
„Bara vera ákveðnari, sækja á körfuna og berjast. Við þurfum að gera það út í gegnum allan leikinn. Ekki bara í 20 mínútur. Það gengur ekki upp í svona deild,“ sagði Hákon í samtali við mbl.is