Tindastóll hafði betur gegn Stjörnunni, 95:92, í miklum spennuleik í 2. umferð úrvalsdeildar kvenna í körfubolta á Sauðárkróki í kvöld. Tindastóll er með einn sigur og eitt tap og Stjarnan tvö töp.
Staðan var 93:92 fyrir Tindastóli þegar Stjarnan var með boltann og um 20 sekúndur voru eftir. Stjörnukonur voru dæmdar brotlegar og Tindastóll sigldi sigrinum í höfn.
Marta Hermida átti stórkostlegan leik fyrir Tindastól og skoraði 49 stig og gaf átta stoðsendingar. Madison Sutton skoraði 24 stig og tók 16 fráköst.
Diljá Ögn Lárusdóttir skoraði 20 stig fyrir Stjörnuna og Eva Wium Elíasdóttir 19.
Íslandsmeistarar Hauka áttu ekki í vandræðum með að vinna nýliða KR á útivelli, 92:70. Haukar eru með tvo sigra og KR einn sigur og eitt tap.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og var staðan eftir tvo leikhluta 40:37, Haukum í vil. Haukar voru svo mun sterkari í seinni hálfleik og unnu sannfærandi sigur.
Krystal-Jade Freeman skoraði 24 stig fyrir Hauka og Amandine Toi gerði 18 fyrir meistarana.
Molly Kaiser skoraði 24 stig fyrir KR og Eve Braslis 14 í sínum fyrsta leik með liðinu.