Hilmar Smári Henningsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, heldur áfram að gera það gott með liði sínu Jonava í Litháen. Í gær lék hann vel í 88:80-sigri á Siauliai í litháíska konungsbikarnum.
Hilmar Smári var með 12 stig, eitt frákast og þrjár stoðsendingar á 22 mínútum í sigrinum í gær. Var hann skammt á eftir stigahæstu mönnum.
Hafnfirðingurinn hefur spilað vel með Jonava frá því Hilmar Smári gekk til liðs við félagið í síðasta mánuði og reglulega verið á meðal stigahæstu manna þó liðið bíði enn eftir sínum fyrsta sigri í úrvalsdeildinni í Litháen að loknum fjórum umferðum.
