Bandaríska körfuboltastjarnan LeBron James verður ekki með LA Lakers í upphafi komandi tímabils í NBA-deildinni vegna meiðsla.
Hinn fertugi James er á leið í sitt 23. tímabil í deildinni, sem er met, en glímir við settaugabólgu (e. sciatica) hægra megin í neðra baki.
ESPN greinir frá því að hann verði af þeim sökum frá næstu þrjár til fjórar vikur og verður því ekki með í fyrsta leik Lakers á tímabilinu gegn Golden State Warriors aðfaranótt miðvikudagsins 22. október.
Verður það í fyrsta skipti á ferlinum sem James missir af fyrsta leik nýs tímabils í NBA-deildinni.
Hann tilkynnti á X-aðgangi sínum í vikunni að stór ákvörðun væri í vændum, sem renndi stoðum undir möguleikann á því að James hygðist leggja skóna á hilluna, en „ákvörðunin“ reyndist einungis vera auglýsing fyrir koníak sem hann á í samstarfi við, sem reitti marga aðdáendur James til reiði.
