ÍR vann Njarðvík á útivelli, 102:100, eftir framlengdan leik í 2. umferð úrvalsdeildar karla í körfubolta í kvöld.
Njarðvík tók á móti ÍR í 2. umferð Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld og lauk leiknum með sigri ÍR 102:100. Leikið var í Icemar-höllinni í Innri-Njarðvík. Eftir leikinn eru Njarðvíkingar enn án stiga í deildinni og ÍR-ingar eru með 2 stig.
Það var mikið jafnræði með liðunum í fyrsta leikhluta. ÍR-ingar skoruðu fyrstu 5 stig leiksins en þá komu 8 stig í röð frá Njarðvík. Eftir það skiptust liðin á að vera yfir í leikhlutanum sem lauk með sama stigamun og hann byrjaði, sem sagt allt jafnt. Staðan 20:20.
Njarðvíkingar byrjuðu annan leikhluta vægast sagt skelfilega sem gerði ÍR-ingum kleift að byggja upp 14 stiga forskot í honum. Loksins þegar Njarðvíkingar ákváðu að byrja leikhlutann tókst þeim að saxa á forskot ÍR-inga og jafna leikinn með þriggja stiga körfu frá Veigari Páli Alexanderssyni í stöðunni 42:42.
ÍR-ingar héldu áfram að leiða út leikhlutann og tókst þeim að komast yfir þegar um 14 sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik í stöðunni 46:44. Veigar Páll reyndi þriggja stiga skot á lokasekúndunni en niður vildi boltinn ekki og fóru ÍR-ingar með 2 stiga forskot inn hálfleikinn.
Veigar Páll Alexandersson skoraði 15 stig og tók 4 fráköst og gaf 3 stoðsendingar í fyrri hálfleik fyrir Njarðvíkinga.
Njarðvíkingar jöfnuðu leikinn strax í upphafi þriðja leikhluta í stöðunni 46:46 og síðan aftur í 52:52. Eftir það náðu ÍR-ingar að setja mikið af þriggja stiga körfum á meðan Njarðvíkingar voru ekki að hitta vel fyrir utan.
Náðu ÍR-ingar því að halda 4 stiga forskoti sem fór reglulega ofar en mestur var munurinn þegar þriðja leikhluta lauk en þá var staðan 74:67 fyrir ÍR.
Fjórði leikhluti var svakalegur. Njarðvíkingar eltu nánast allan leikhlutann en náðu að jafna leikinn í stöðunni 88:88 þegar rúmlega 2 mínútur voru eftir af leiknum.
Njarðvík náði síðan forskoti í stöðunni 90:88 en ÍR-ingar jöfnuðu leikinn og komust yfir 92:91 þegar 23,7 sekúndur voru eftir. Veigar Páll fór þá á vítalínuna og jafnaði leikinn í 92:92. Var það niðurstaða leiksins eftir fjóra leikhluta og þurfti að framlengja.
Framlengingin var vægast sagt dramatísk. Njarðvíkingar mættu dýrvitlausir inn í framlenginguna og náðu 8 stiga forskoti í stöðunni 100:92 fyrir Njarðvík. Þann mun saxaði ÍR niður og komst yfir þegar 23,7 sekúndur voru eftir af framlengingunni í stöðunni 101:100 fyrir ÍR.
Njarðvíkingar klikkuðu á sókn sinni og brutu strax. Náðu ÍR-ingar að skora úr öðru vítaskoti sínu. Njarðvíkingar reyndu að lokum 3 stiga skot en ofan í vildi boltinn ekki og ÍR vann 2 stiga sigur.
Jacob Falko skoraði 29 stig fyrir ÍR. Zarko Jukic gaf 6 stoðsendingar. Dimitrios Klonaras tók 7 fráköst.
Gangur leiksins:: 2:5, 10:8, 16:17, 20:20, 22:28, 25:39, 37:39, 44:46, 49:52, 54:60, 63:67, 67:74, 72:83, 80:88, 88:88, 92:92, 100:95, :102.
Njarðvík: Veigar Páll Alexandersson 30/8 fráköst/6 stoðsendingar, Dwayne Lautier-Ogunleye 30/6 stoðsendingar, Brandon Averette 17/5 fráköst, Dominykas Milka 8/9 fráköst, Julio Calver De Assis Afonso 5, Isaiah Coddon 5, Mario Matasovic 3/11 fráköst, Brynjar Kári Gunnarsson 2.
Fráköst: 31 í vörn, 8 í sókn.
ÍR: Jacob Falko 29/6 fráköst/6 stoðsendingar, Dimitrios Klonaras 16/7 fráköst/6 stoðsendingar, Tsotne Tsartsidze 14, Hákon Örn Hjálmarsson 12/5 fráköst, Tómas Orri Hjálmarsson 9/4 fráköst, Kristján Fannar Ingólfsson 9, Zarko Jukic 8/4 fráköst/6 stoðsendingar, Aron Orri Hilmarsson 3, Rafn Kristján Kristjánsson 2/4 fráköst.
Fráköst: 26 í vörn, 8 í sókn.
Dómarar: Jóhannes Kristbjörnsson, Jóhannes Páll Friðriksson, Dominik Zielinski.