Förum í það að passa forskotið

Veigar Páll Alexandersson.
Veigar Páll Alexandersson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Veigar Páll Alexandersson leikmaður Njarðvíkur í körfubolta skoraði 30 stig, tók 8 fráköst og gaf 6 stoðsendingar þegar lið hans mætti ÍR í kvöld í 2. umferð Íslandsmóts karla í körfubolta.

Frábær frammistaða Veigars Páls dugði ekki til því ÍR-ingar unnu 2 stiga sigur eftir framlengdan leik í Icemar höllinni í Innri-Njarðvík.

Spurður út í mjög svo sveiflukenndan leik í kvöld sagði Veigar Páll þetta:

„Við vorum með unninn leik klárlega eftir að hafa verið 8 stigum yfir í framlengingunni. Núna erum við búnir að tapa tveimur leikjum en við erum að reyna finna út úr þessu. Núna þurfum við bara að læra af þeim mistökum sem við gerðum í kvöld, bæta okkur og horfa fram á veginn.“

Eitthvað sérstakt sem þér fannst mega fara betur í kvöld?

„Já, þeir sóttu mikið á okkar veikleika í kvöld og gerðu það vel. Okkur tókst hins vegar ekki að stoppa það og hefðum mátt loka fyrir það í leiknum en við verðum að læra af því og gera betur í næsta leik sem er á móti ÍA næsta fimmtudag. Sóknarlega voru þeir að pakka teignum vel og við hefðum mátt finna betri lausnir til að komast í betri skotstöður oft og tíðum.“

Eins og þú segir þá voruð þið með unninn leik í raun þegar Njarðvík er 8 stigum yfir í framlengingunni í stöðunni 100:92 og 3:12 eftir. Njarðvík skorar síðan ekki fleiri stig í framlengingunni í heilar 3 mínútur og 12 sekúndur. Veistu hvað veldur því?

„Við líklega förum í það að passa forskotið. Reyna að halda þessu, verðum ragir og passífir. Það er auðvitað ekki ásættanlegt en gerist stundum í svona stöðum. Við vorum að taka okkur allan tímann í sókninni og í eitt skiptið kom upp sú staða þar sem við náðum ekki upp skoti. En þetta er eitt af því sem við þurfum að læra af og leysa betur ef þessi staða kemur upp aftur.“

Líkt og þú bendir á þá er næsti leikur á móti ÍA á Akranesi. Skagamenn eru nýliðar í deildinni. Koma fyrstu stig Njarðvíkur í deildinni á móti þeim?

„Það verður að vera. Það er ekkert annað í boði úr því sem komið er,“ sagði Veigar Páll í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka