Það fær enginn auðveldan leik hérna

Kári Jónsson og Giannis Agravanis í baráttu í kvöld.
Kári Jónsson og Giannis Agravanis í baráttu í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Giannis Agravanis átti flottan leik fyrir Stjörnuna er liðið sigraði Val, 94:91, í 2. umferð úrvalsdeildar karla í körfubolta í Garðabænum í kvöld. Úrslitin réðust á spennandi lokakafla, en Agravanis var á bekknum þar sem hann var kominn með fimm villur.

„Ég vildi hjálpa liðinu en því miður var ég með fimm villur. Ég er virkilega sáttur með sigurinn. Þetta var skemmtilegur leikur og það er alltaf erfitt að mæta Val.

Við erum búnir að vinna þá tvisvar í röð og við höldum áfram. Orkan okkar var góð og við vildum verja heimavöllinn okkar. Það fær enginn auðveldan leik hérna,“ sagði Grikkinn við mbl.is.

Mikill hiti var í leiknum og menn að rífast, mótmæla og takast á. „Það er hluti af leiknum. Á meðan þetta fer ekki yfir strikið þá er þetta í góðu lagi. Það er mikið undir og menn vilja vinna,“ sagði Agravanis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert