Kristófer Acox fyrirliði Vals var skiljanlega svekktur eftir naumt 94:91-tap gegn Stjörnunni á útivelli í úrvalsdeild karla í körfubolta í gærkvöldi. Valur er án stiga eftir tvo leiki í deildinni.
„Í gegnum árin höfum við verið að vinna svona leiki, þegar við lendum undir, náum að jafna og þetta verður spennandi. Núna þrjá leiki í röð erum við búnir að klúðra því.
Það er svo stutt á milli í þessu. Þeir taka sóknarfráköst og ég gaf víti þegar ég hélt við værum með þrjár liðsvillur og þeir fá gefins stig á vítalínunni. Ég tek það á mig,“ sagði Kristófer og hélt áfram:
„Það er enn þá október og við erum að slípa okkur saman. Auðvitað er þungt að byrja á þremur tapleikjum í röð en það er nóg eftir og við verðum að halda áfram.
Við erum búnir að vera að spila við tvö af bestu liðum deildarinnar. Við tökum það góða út úr þessu. Við höfum lent svolítið undir og kannski er orkan búin í restina.“
Mikill hiti var í leiknum, mikið rifist mótmælt og tekist á. Kristófer hefur gaman að slíku.
„Það er partur af leiknum. Það væri skrítið ef það væri ekki hiti. Þetta gerist allt í hita leiksins. Þetta líkist úrslitakeppninni og það er gott að fá alvöruleiki í október,“ sagði Kristófer.