Tryggvi Snær Hlinason fyrirliði Bilbao lét vel til sín taka í dag þegar lið hans vann Íslendingaleik spænsku ACB-deildarinnar í körfuknattleik gegn San Pablo Burgos á heimavelli, 95:85.
Tryggvi var frákastahæstur allra í leiknum með 8 fráköst og skoraði auk þess sex stig fyrir Bilbao en hann lék í 20 mínútur.
Jón Axel Guðmundsson leikmaður San Pablo Burgos og félagi Tryggva í íslenska landsliðinu missti af leiknum vegna meiðsla en hann varð fyrir meiðslum á öxl í leik liðsins í fyrstu umferð deildarinnar.
Bilbao náði með þessu í sín fyrstu stig á tímabilinu eftir að hafa tapað fyrir Unicaja Málaga í fyrstu umferðinni en nýliðar San Pablo máttu sætta sig við sitt fyrsta tap eftir sannfærandi sigur á Girona í fyrstu umferð.
