Valsmenn: Það er allt rangt við þetta

Pablo Cesar Bertone með boltann í úrslitaleiknum gegn Tindastóli 2023 …
Pablo Cesar Bertone með boltann í úrslitaleiknum gegn Tindastóli 2023 en eftir hann var Bertone úrskurðaður í fimm leikja bann. mbl.is/Óttar Geirsson

Körfuknattleiksdeild Vals hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna þátttöku Pablo Bertone í leik Stjörnunnar og Vals í úrvalsdeild karla í gærkvöld.

Bertone var úrskurðaður í fimm leikja bann í lok tímabilsins 2023, síðast þegar hann lék á Íslandi. Hann sneri aftur til landsins fyrir þetta tímabil og átti þá eftir að afplána bannið en Stjarnan nýtti sér galla í regluverki Körfuknattleikssambands Íslands og lét Bertone afplána þrjá leikjanna með liði KFG í 2. deild karla.

Bertone skoraði 19 stig í gærkvöld og átti drjúgan þátt í sigri Stjörnunnar í hörkuleik liðanna í 2. umferð úrvalsdeildarinnar í Garðabæ í gærkvöld.

Yfirlýsingin sem Valsmenn birtu á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildarinnar er svo hljóðandi:

Efni: Heiðarleiki, ábyrgð og álit körfuboltans

Í gærkvöldi fór fram hörkuleikur milli Stjörnunnar og Vals í annarri umferð í Bónusdeild karla í Garðabæ, sem lauk með sigri heimamanna.

Eftir leikinn höfum við í stjórn KKD Vals fengið fjölda fyrirspurna um þátt vinar okkar Pablo Cesar Bertone í leiknum. Eins og flestir muna þá fékk hann fimm leikja bann í sínum síðasta leik með Val í júní 2023.

Við börðumst fyrir því með öllum tiltækum ráðum að fá það bann mildað á sínum tíma. En án árangurs, því miður. Hann hefur ekki spilað á Íslandi síðan þá.

Samkvæmt Stjörnunni hefur Pablo tekið út bann sitt í tveimur leikjum Stjörnunnar og svo með KFG í 2. deild. Það sjá allir að slíkt fyrirkomulag gengur ekki upp og er þeim til skammar sem að því standa.

Miðað við þetta geta leikmenn tekið út bann með liði sem þeir hafa aldrei leikið fyrir og munu aldrei leika fyrir. Slíkt er augljóslega í ósamræmi við tilgang agaviðurlaga og anda leiksins.

Það veldur einnig vonbrigðum að þessi staða hefur komið upp áður, hjá sama félagi, í bikarkeppni KKÍ 2023, og nú aftur með því að misnota regluverk sambandsins. Þá sagðist KKÍ ætla að endurskoða regluverkið en að þetta sé enn hægt sýnir að ekki hefur verið brugðist við.

Við í Val teljum að það sé á ábyrgð KKÍ að tryggja trúverðugleika leiksins og vernda heiðarleika íþróttarinnar. Það verður að vera ljóst að leikbann þýðir raunverulega fjarveru frá leikjum þess liðs sem viðkomandi spilar með, en sé ekki bara formsatriði á pappír.

Það vita allir sem þekkja íþróttir hvað fimm leikja bann þýðir. Það er ekkert óskýrt í þessari setningu. Með þessu er verið að senda aga- og úrskurðarnefnd og KKÍ langt nef og hæðast að hugmyndafræði leiksins.

Ef KKÍ bregst ekki við, er staðan sú, að leikmaður getur enn spilað með tveimur liðum í sömu viku – milli deilda – og jafnvel tekið út leikbann með öðru liði en því sem hann er ráðinn til og spilar fyrir.

Það er allt rangt við þetta. Að taka út leikbann með liði sem leikmaður hefur aldrei og mun aldrei spila með er í fullkomnu ósamræmi við anda leiksins, tilgang regluverksins og grunnhugmyndafræði íþrótta almennt. Því til viðbótar eru skilaboð okkar til yngri iðkenda með þessu afar röng.

Í gærkvöldi tapaði bæði háttvísin og körfuboltinn – og vissulega Valur einnig.

Það er óskandi að önnur lið taki ekki upp þennan ósið, ef leikmenn fara í bann eða ef lið vilja styrkja sig fyrir staka leiki – og þannig dragi enn frekar úr virðingu leiksins.

Við hvetjum KKÍ til að sýna festu og leiðtogahæfni og koma í veg fyrir að svona atvik endurtaki sig og skoða tilurð þessa atviks ítarlega. Þetta snýst ekki um eitt félag, einn leik eða einn leikmann, heldur ímynd á íþróttinni sjálfri. Sú ímynd hefur beðið hnekki.

Í gær bar kappið fegurðina ofurliði.

KKD Vals.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert