Stórsigur Skagfirðinga í fyrsta Evrópuleik í Síkinu

Sigtryggur Arnar Björnsson á fleygiferð með Tindastóli gegn Gimle í …
Sigtryggur Arnar Björnsson á fleygiferð með Tindastóli gegn Gimle í kvöld. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Tindastóll vann norska liðið Gimle í 2. umferð ENBL-deildarinnar í körfubolta með 37 stiga mun, 125:88 og var þetta fyrsti Evrópuleikur Skagfirðinga á heimavelli sínum, Síkinu á Sauðárkróki.

Eftir leikinn er Tindastóll með tvo sigra í tveimur leikjum og með 4 stig en Gimle hefur tapað báðum leikjum sínum.

Það var mikið jafnræði á með liðunum í fyrsta leikhluta og leiddi Gimle leikinn framan af. Bandaríski leikmaður Gimle, Javonte Johnson, var Skagfirðingum erfiður í fyrsta leikhluta og skoraði 11 stig, en það var stórkostlegur leikur Ragnars Ágústssonar í fyrsta leikhluta sem gerði það að verkum að Tindastóll vann fyrsta leikhlutann 25:23 með þriggja stiga körfu á síðustu sekúndu leikhlutans.

Jafnræðið hélt áfram milli liðanna fyrstu 4 mínútur annars leikhluta en eftir það hófu Skagfirðingar áhlaup sem losaði þá talsvert frá Gimle. Javonte Johnson reyndist ískaldur hjá Gimle en frábær liðsheild Tindastóls kom þeim mest 20 stigum yfir í stöðunni 59:39 með þriggja stiga körfu þegar örfáar sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik. Gimle náði að skora þriggja stiga körfu á lokasekúndu fyrri hálfleiks og staðan í hálfleik 59:42 fyrir Tindastóli.

Ragnar Ágústsson skoraði 15 stig, Ivan Gavrilovic tók 9 fráköst og gaf Dedrick Basile 4 stoðsendingar fyrir Tindastól í fyrri hálfleik.

Javonte Johnson skoraði 14 stig og tók 7 fráköst fyrir Gimle en Jorgen Odfjell gaf 3 stoðsendingar fyrir Gimle.

Skagfirðingar kafkeyrðu norska liðið í þriðja leikhluta. Náðu Stólarnir 33 stiga mun í stöðunni 78:45 og höfðu Skagfirðingar þá skorað 19 stig gegn 3 stigum Gimle í þriðja leikhluta. Gimle náði að klóra í bakkann síðustu mínútur þriðja leikhluta og minnka muninn niður í 20 stig í stöðunni 88:68.

Tindastóll gaf Gimle aldrei tækifæri til að komast raunverulega inn í leikinn eftir frábæran þriðja leikhluta. Náðu Skagfirðingar að byggja forskotið aftur upp í byrjun fjórða leikhluta og var staðan þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar af honum 102:72 fyrir Tindastól og munurinn 30 stig.

Tindastóll náði 34 stiga mun í stöðunni 108:74. Þrátt fyrir að leikurinn væri löngu unninn gáfu Skagfirðingar aldrei eftir og tók Arnar leikhlé um leið og hans menn virtust ætla að fara slaka á. Héldu Stólarnir áfram að auka mesta mun sinn í leiknum sem varð mestur 37 stig í stöðunni 125:88 sem voru einnig lokatölur leiksins.

Unnu Skagfirðingar að lokum risastóran 37 stiga sigur í fyrsta Evrópuleik sínum í Síkinu á Sauðárkróki.

Ragnar Ágústsson skoraði 28 stig fyrir Tindastól. Ivan Gavrilovic tók 14 fráköst og gaf Dedrick Basile 9 stoðsendingar.

Javonte Johnson var með 23 stig fyrir Gimle og tók hann 10 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.

Tindastóll 125:88 Gimle opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert