Bretar í bann og leikur við Ísland í óvissu

Breska liðið keppti á EM.
Breska liðið keppti á EM. Ljósmynd/FIBA

Alþjóðakörfuknattleikssambandið, FIBA, hefur sett breska karlalandsliðið í körfubolta í bann frá alþjóðlegum keppnum.

Ástæðan er sú að körfuknattleikssamband Bretlands samþykkti að stofna nýja deild undir handleiðslu bandaríska auðmannsins Marshall Glickman.

Að mati FIBA er deildin, sem á að koma í staðinn fyrir núverandi efstu deild Bretlands, ólögleg. Mörg félög í efstu deild hafa mótmælt stofnun deildarinnar.

Breska sambandið og Glickman höfðu gert 15 ára samning sem færði sambandinu miklar tekjur, en FIBA hefur nú stigið inn í og bannað breska liðið tímabundið hið minnsta. Bretland keppti á EM í haust og hafnaði í 21. sæti, einu sæti ofar en Ísland.

Næsti leikur liðsins á að vera gegn Litháen í undankeppni HM 27. nóvember næstkomandi. Þremur dögum síðar eiga Ísland og Bretland að mætast í sömu undankeppni hér á landi og er óvissa með þann leik sömuleiðis.

Ítalía er einnig í riðlinum og fara þrjú efstu liðin áfram á næsta stig undankeppninnar. Flest benti til þess að Ísland og Bretland myndu berjast um þriðja sætið en nú er allt slíkt komið í uppnám.

Seinni leikur Bretlands og Íslands er á dagskrá 5. júlí á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert