Fjórir leikir fóru fram í 3. umferð úrvalsdeildar karla í körfubolta í kvöld og má segja að frekar jafnt hafi verið á tölum í öllum leikjunum.
Á Álftanesi fór fram stórleikur umferðarinnar þar sem Álftanes tók á móti Grindavík. Enduðu leikar þannig að Grindavík vann 9 stiga sigur 79:70. Eftir leikinn eru Grindvíkingar með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir.
Grindvíkingar leiddu leikinn eftir fyrsta leikhluta 18:14. Álftanes komst í bílstjórasætið í öðrum leikhluta og að honum loknum var staðan 42:39 fyrir heimamenn.
Grindvíkingar gáfust ekki upp og náðu upp forskoti í þriðja leikhluta og var staðan að honum loknum 61:54. Grindvíkingar gáfu það forskot ekki eftir og unnu að lokum 9 stiga sigur.
KR-ingar tóku á móti Þór Þorlákshöfn og lauk leiknum með 20 stiga sigri KR-inga 95:75. KR-ingar eru eftir leikinn á toppi deildarinnar með 6 stig líkt og Grindavík.
KR-ingar leiddu eftir alla leikhluta í kvöld ef frá er talinn fyrsti leikhluti þar sem staðan að honum loknum var 19:19. KR-ingar náðu oft og tíðum að byggja upp gott forskot í leiknum og voru sannfærandi allan leikinn.
Valsmenn fengu Ármann í heimsókn. Náðu Valsmenn að vinna sinn fyrsta sigur í deildinni á tímabilinu 94:83. Leikurinn var í járnum allt þangað til í fjórða leikhluta. Tókst liði Ármanns að komast yfir í leiknum.
Staðan eftir fyrsta leikhluta var 26:18 fyrir Val og í hálfleik voru Valsmenn með 3 stiga forskot 44:41.
Ármann náði forskoti í þriðja leikhluta í stöðunni 47:44. Þann mun náðu gestirnir að auka í mest 8 stig í stöðunni 57:49.
Þá sögðu Valsmenn hingað og ekki lengra, söxuðu á forskot Ármanns og jöfnuðu leikinn fyrir lokaleikhlutann í stöðunni 64:64. Valsmenn sýndu síðan styrk sinn í fjórða leikhluta og unnu þeir að lokum 11 stiga sigur.
Það var svakalegur leikur á Akranesi þegar Njarðvík sótti sinn fyrsta sigur á tímabilinu með því að vinna ÍA 130:119. Skagamenn leiddu leikinn framan af og komust 12 stigum yfir í stöðunni 50:38 í öðrum leikhluta. Njarðvíkingar gáfust ekki upp og jöfnuðu leikinn í stöðunni 53:53.
Skagamenn fóru þó með 2 stiga forskot inn í hálfleikinn í stöðunni 55:53. Njarðvíkingar jöfnuðu leikinn í stöðunni 59:59 og komust í kjölfarið yfir í leiknum. Leiddu Njarðvíkingar restina af leikhlutanum og náðu mest 8 stiga forskoti í leikhlutanum sem endaði þó með því að Njarðvíkingar leiddu með þremur stigum í stöðunni 83:80.
Fjórði leikhlutinn var heldur betur spennandi þar sem liðin skiptust á að jafna og komast yfir. Fór svo að framlengja þurfti leikinn þar sem staðan að leik loknum var jöfn 109:109. Njarðvíkingar reyndust sterkari í framlengingunni og léku á als oddi. Fór svo að gestirnir unnu 11 stiga sigur 130:119.
Fylgst var með leikjunum fjórum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.