„Ég er ósáttur með þessa frammistöðu og þetta var mjög lélegt hjá okkur í dag. Eins slæmt og það gat verið,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson þjálfari Íslandsmeistara Stjörnunnar eftir 21 stigs tap gegn Keflavík í 3. umferð úrvalsdeildar karla í körfubolta í kvöld.
Baldur Þór var langt frá því að vera ánægður með frammistöðu Stjörnunnar og hafði þetta að segja spurður nánar út í leik liðsins:
„Þetta er bara sambland af því að við erum bara að standa okkur ofboðslega illa inni á vellinum, það skiptir engu hvort um sé að ræða vörn eða sókn. Okkur gengur illa að skora. Menn voru bara litlir í sér á mörgum stöðum. Við getum ekki sent eðlilegar sendingar á milli okkar.
Bara allt of mörg atriði þar sem við erum bara algjörlega úr karakter sem hleypir þessu í þetta stóra tap. Núna fer ég bara yfir þennan leik og það er bara ljóst að það þarf að bæta þetta og við verðum að vera betri en þetta í næsta leik.“
Hvað þarf að lagast fyrir næsta leik?
„Sjálfstraust, áræðni, boltaflæði, hitta í körfuna og það að geta sent boltann á samherja. Þetta þarf allt að lagast fyrir næsta leik.“
Þið skorið 71 stig. Þú ert væntanlega ekki ánægður með það?
„Nei, alls ekki. Langt því frá. Líka bara menn í hinu liðinu sem eru að skora alltof mikið sem við hefðum, með betri varnarleik, átt að geta komið í veg fyrir. Þetta er bara blanda af öllum þessum hlutum og við þurfum að gera betur á öllum sviðum leiksins,“ sagði Baldur Þór í samtali við mbl.is.