Körfuboltamaðurinn og Grindvíkingurinn DeAndre Kane þarf að borga 15.000 króna sekt vegna atviks sem kom upp í leik Grindavíkur og ÍA í 2. umferð úrvalsdeildarinnar þann 9. október.
Þetta kemur fram í úrskurði Aga- og úrskurðarnefndar KKÍ en Kane var rekinn út úr húsi í leiknum sem lauk með nokkuð öruggum sigri Grindavíkur, 109:96.
„Með vísan til ákvæðis a. liðar 1. mgr. 13. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál skal hinn kærði, DeAndre Kane, leikmaður Grindavíkur, sæta 15.000 króna sekt vegna háttsemi sinnar í leik Grindavík gegn ÍA, sem fram fór þann 9 október 2025,“ segir í úrskurði Aganefndarinnar.
Grindavík hefur farið vel af stað á tímabilinu og trónir á toppi deildarinnar ásamt KR með fullt hús stiga eða sex stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar.
