Það var stórleikur í körfubolta í kvöld þegar Keflavík tók á móti Íslandsmeisturum Stjörnunnar í Keflavík og lauk leiknum með 92:71 sigri Keflavíkur. Keflvíkingar eru því með 2 sigra og eitt tap í deildinni á meðan Íslandsmeistararnir hafa tapað tveimur leikjum og unnið einn.
Keflvíkingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust 9:0 yfir áður en Ægir Þór Steinarsson fyrirliði Stjörnunnar kom þeim á blað með þriggja stiga körfu.
Stjörnumenn unnu sig í kjölfarið hratt inn í leikinn, jöfnuðu í stöðunni 11:11 og komust 14:11 yfir. Þeir leiddu síðan restina af leikhlutanum og voru 23:21 yfir eftir fyrsta leikhlutann.
Vindarnir blésu ekki með Garðbæingum í öðrum leikhluta. Valur Orri Valsson kom Keflvíkingum 26:25 yfir með þriggja stiga körfu og eftir það voru það Keflvíkingar sem voru í bílstjórasætinu.
Í stöðunni 35:31 var dæmt sóknarbrot á lið Stjörnunnar. Það var Baldur Þór Ragnarsson vægast sagt ósáttur við og lét dómarana gjörsamlega heyra það óþvegið. Fékk hann dæmda á sig tæknivillu og fengu Keflvíkingar alla sína stuðningsmenn með sér í lið og þegar það gerist í Íþróttahúsinu í Keflavík þá er voðinn vís fyrir andstæðingana.
Keflvíkingar komust mest 11 stigum yfir í stöðunni 46:35 og 48:37. Stjörnumenn náðu að koma forskoti Keflavíkur niður í 9 stig fyrir hálfleik og var staðan í hálfleik 48:39 fyrir Keflvíkingum.
Keflvíkingar byggðu upp 9 stiga forskot í þriðja leikhluta þegar staðan var 50:41. Stjörnumenn gáfust þó ekki upp og náðu að minnka muninn niður í eitt stig í stöðunni 52:51. Þá kviknaði aftur á Keflavíkurhraðlestinni og komust þeir 7 stigum yfir í stöðunni 58:51 og lokuðu þriðja leikhluta 8 stigum yfir í stöðunni 66:58. Ótrúlegt var að fylgjast með því hversu mikil áhrif stuðningsmenn Keflavíkur höfðu á liðið. Sást glögglega að þegar lætin voru mikil í Íþróttahúsinu í Keflavík og stuðningsmennirnir að hvetja sína menn áfram þá virtist liðið óstöðvandi.
Keflavík hóf fjórða leikhluta á því að komast 10 stigum yfir í stöðunni 68:58 með tveggja stiga körfu frá Hilmari Péturssyni. Stuðningurinn úr stúkunni jókst mikið við þetta og það var eins og vítamínsprauta fyrir heimamenn sem komust 14 stigum yfir í stöðunni 72:58. Þá tóku Garðbæingar leikhlé enda Keflavíkurhraðlestin að keyra yfir þá.
Leikhlé Stjörnunnar skilaði litlu því tvær þriggja stiga körfur í röð frá Keflvíkingum veittu Garðbæingum náðarhöggið og staðan orðin 78:60 fyrir Keflavík. Darryl Latrell Morsell kom Keflvíkingum síðan 20 stigum yfir í stöðunni 80:60 og restin af leiknum var formsatriði fyrir heimamenn.
Fór það svo að Keflvíkingar unnu stórsigur á Íslandsmeisturunum.
Darryl Latrell Morsell skoraði 21 stig og tók 6 fráköst fyrir Keflavík. Valur Orri Valsson gaf 4 stoðsendingar.
Orri Gunnarsson skoraði 22 stig fyrir Stjörnuna. Luka Gasic tók 11 fráköst og gaf Ægir Þór Steinarsson 8 stoðsendingar.
Blue-höllin, Bónus deild karla, 17. október 2025.
Gangur leiksins:: 9:3, 11:11, 16:18, 21:23, 28:27, 40:35, 46:37, 48:39, 52:44, 52:51, 58:56, 64:58, 72:58, 80:61, 90:67, 92:71.
Keflavík: Darryl Latrell Morsell 21/7 fráköst, Jaka Brodnik 18/7 stolnir, Valur Orri Valsson 11, Hilmar Pétursson 11, Ólafur Björn Gunnlaugsson 11/7 fráköst/3 varin skot, Craig Edward Moller 11/7 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 5/4 fráköst, Jordan Kevin Williams 4/5 fráköst.
Fráköst: 27 í vörn, 10 í sókn.
Stjarnan: Orri Gunnarsson 22/5 fráköst, Seth Christian Le Day 11/7 fráköst, Luka Gasic 10/11 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 9/8 stoðsendingar, Bjarni Guðmann Jónson 8, Giannis Agravanis 8/5 fráköst, Pablo Cesar Bertone 3/8 fráköst.
Fráköst: 28 í vörn, 13 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Jakob Árni Ísleifsson.
Áhorfendur: 370