„Tindastóll er gott lið en við spiluðum mjög illa,“ sagði Borche Ilievski þjálfari ÍR í samtali við mbl.is eftir stórt tap gegn Tindastóli, 113:67, í 3. umferð úrvalsdeildar karla í körfubolta í Skógarselinu í kvöld.
„Ég vil biðja stuðningsmennina okkar afsökunar. Það er engin afsökun að spila svona illa. Liðið var ekki á sömu blaðsíðu.
Við vorum góðir í fyrsta leikhluta en eftir hann hættum við bara að spila. Okkur var refsað fyrir okkar mistök og við gerðum fullt af þeim,“ sagði hann.
Jacob Falko, besti leikmaður ÍR, átti ekki góðan leik og var stigalaus fram að miðjum þriðja leikhluta.
„Stór ástæða þess að við spiluðum svona illa var að hann var ekki góður. Taiwo Badmus varðist honum virkilega vel líka,“ sagði Borche og hélt áfram:
„Við skoðum þennan leik, verðum hreinskilnir við okkur sjálfa og ég á von á svari strax í næsta leik. Stjarnan er í næsta deildarleik og það er annar mjög erfiður leikur. Við þurfum að sýna miklu meiri orku í þeim leik,“ sagði hann.
