Shai Gilgeous-Alexander fór fyrir NBA-meisturum Oklahoma City Thunder þegar liðið vann sinn áttunda sigur í jafnmörgum leikjum á yfirstandandi tímabili í nótt. Liðið heimsótti Los Angeles Clippers og vann 126:107.
Gilgeous-Alexander skoraði 30 stig, gaf tólf stoðsendingar og varði þrjú skot.
Atkvæðamestur hjá Clippers var James Harden með 25 stig, sex fráköst og sex stoðsendingar.
Stórleikur Devin Booker fyrir Phoenix Suns dugði ekki til í 118:107-tapi fyrir Golden State Warriors í San Francisco.
Booker skoraði 38 stig og var stigahæstur í leiknum.
Steph Curry var eins og við mátti búast stigahæstur í liði Golden State með 28 stig.
Josh Giddey var þá með þrefalda tvennu fyrir Chicago Bulls í 113:111-sigri á Philadelphia 76ers í Chicago.
Ástralinn Giddey skoraði 29 stig, tók 15 fráköst og gaf 12 stoðsendingar.
Tyrese Maxey var stigahæstur í leiknum með 39 stig og þrjú varin skot í liði Philadelphia.
Úrslit næturinnar:
LA Clippers – Oklahoma City 107:126
Golden State – Phoenix 118:107
Chicago – Philadelphia 113:111
Toronto – Milwaukee 128:100
Atlanta – Orlando 127:112
New Orleans – Charlotte 116:112