Steinþór: Er í skemmtilegasta hlutverkinu

Steinþór er þekktur fyrir sín stórglæsilegu innköst.
Steinþór er þekktur fyrir sín stórglæsilegu innköst. mbl.is

„Miðað við gengi liðsins og hvernig maður er að spila þá var svo sem alveg hægt að reikna með þessu,“ sagði Steinþór Freyr Þorsteinsson í samtali við mbl.is eftir að hann var kjörinn leikmaður umferða 1-7 í Pepsideildinni í knattspyrnu.

Steinþór kom til Stjörnunnar frá Breiðabliki í haust eftir að hafa verið varamaður í Kópavoginum en hann hefur slegið í gegn í Garðabænum þar sem hann leikur í nokkuð frjálsu hlutverki sem sóknarsinnaður miðjumaður.

Biggi og Bjössi þrífa upp eftir mig

„Það má kannski segja að ég sé í skemmtilegasta hlutverkinu þarna. Ég er ekkert með of mikið varnarhlutverk en reyni samt að sinna því líka, en það lendir mest á Bigga og Bjössa [Birgi Hrafni Birgissyni og Birni Pálssyni] að þrífa upp eftir mig. Ég get þá hvílt mig betur og eytt orkunni í sóknina. Þeir kalla svo bara á mig þegar þess þarf,“ sagði Steinþór sem nýtur þess mjög að leika með Stjörnunni.

Áhorfendur öskra allan leikinn

„Það er gaman núna. Stemningin er mikil og áhorfendur eru búnir að vera framar vonum. Þeir fylla stúkuna og öskra allan leikinn. Við leikmennirnir erum allir á svipuðum aldri og náum alveg mjög vel saman. Þegar ég kom þarna fyrst þá leið mér bara eins og ég hefði alltaf verið í þessu liði. Það er mjög vel tekið á móti manni,“ sagði Steinþór.

Stjarnan hefur skorað tuttugu mörk í fyrstu sjö umferðunum og er í 2. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir FH.

Alla þyrstir í að koma inná

„Þetta var líka svona hjá okkur í deildabikarnum, við skoruðum mikið af mörkum en þá fengum við líka mörg á okkur. Svo bara í fyrsta leik í deildinni fylltu menn í öll göt,“ sagði Steinþór sem reiknar ekki með neinu Stjörnuhrapi eins og talað var um eftir að liðið tapaði fyrir FH í fjórðu umferð.

„Úrslitin sögðu lítið um hvernig leikurinn var. Þeir áttu skilið að vinna en við hefðum getað stolið stigi. Ég held að við getum alveg haldið svona áfram og það eru menn á bekknum sem geta alveg komið inn og gætu alveg verið í byrjunarliði. Það þyrstir alla í að koma inná og enginn er með öruggt sæti.“

Stjarnan hefur komið liða mest á óvart í sumar.
Stjarnan hefur komið liða mest á óvart í sumar. mbl.is/Steinn Vignir
mbl.is