Valur Íslandsmeistari kvenna 2007

Valskonur fagna sigrinum í kvöld.
Valskonur fagna sigrinum í kvöld. Golli

Valskonur urðu í kvöld Íslandsmeistarar í knattspyrnu, annað árið í röð, með því að bursta Þór/KA, 10:0, í lokaumferð Landsbankadeildarinnar á Valbjarnarvelli. Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði þrennu og varð langmarkahæst á nýju markameti með 38 mörk í 16 leikjum Valsliðsins.

Auk Margrétar skoraði Málfríður Erna Sigurðardóttir 2 mörk og þær Katrín Jónsdóttir, Vanja Stefanovic, Hallbera Gísladóttir, Nína Ósk Kristinsdóttir og Sif Atladóttir gerðu sitt markið hver.

KR vann Keflavík, 4:0, suður með sjó þar sem Hólmfríður Magnúsdóttir og Olga Færseth skoruðu sín tvö mörkin hvor.

Stjarnan vann ÍR, 5:0, í Mjóddinni þar sem Gunnhildur Jónsdóttir, Þórdís Pétursdóttir, Inga Birna Friðjónsdóttir, Björk Gunnarsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir skoruðu mörkin.

Breiðablik og Fylkir skildu jöfn, 2:2. Anna Björg Björnsdóttir og Ragna B. Einarsdóttir komu Fylki í 2:0 en Greta Mjöll Samúelsdóttir og Kathryn Moos jöfnuðu fyrir Blika undir lokin. Jill Mansfield í liði Breiðabliks fékk síðan rauða spjaldið á síðustu mínútu leiksins.

Valur fékk 46 stig, KR 43, Breiðablik 29, Keflavík 22, Stjarnan 21, Fylkir 13, Fjölnir 13, Þór/KA 13 og ÍR féll með 7 stig. Í stað ÍR koma HK/Víkingur og Afturelding upp í deildina en tíu lið leika í úrvalsdeild kvenna 2008.

mbl.is

Bloggað um fréttina