Fingur í augað í fyrsta bardaganum

Gabríel „The Archangel“ Benediktsson mætti James Power, sem er feykilega öflugur "striker" í sínum fyrsta áhugamannabardaga á Caged Steel mótinu í Doncaster á Englandi 16. júlí.

Miklar kýtingar höfðu átt sér stað á samfélagsmiðlum fyrir bardagann og var því mikil stemmning í húsinu þegar drengirnir stigu í búrið. Fyrsta lota fór vel af stað og skiptust þeir á höggum og spörkum framan af.

Um miðja lotu potaði Power í augað á Gabríel með þeim afleiðingum að Gabríel missti linsu. Dómarinn var hinsvegar ekki á því að gera hlé á bardaganum og sagði drengjunum að halda áfram. Virkilega vont fyrir Gabríel, en við það að missa linsu brenglast fjarlægðarskynið, sem er sérlega vont þegar menn eru standandi með jafn öflugum „striker" og Power.

Lotan endaði í gólfinu eftir að Gabríel hafði gert tilraun til að fella Power, sem tókst að enda ofaná.

Í annarri lotu bætti Power í pressuna og með góðum spörkum og fléttum, en eftir eina slíka féll Gabríel í gólfið og dómarinn stöðvaði bardagann. Tap var því staðreynd en Gabríel lætur það ekki á sig fá og er ákveðinn í að halda áfram af fullum krafti að bæta sig. Hlökkum til að sjá hann aftur í búrinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert