Nurmagomedov og McGregor báðir í bann

Khabib Nurmagomedov yfirgefur keppnissalinn í T-Mobile Arena í Las Vegas ...
Khabib Nurmagomedov yfirgefur keppnissalinn í T-Mobile Arena í Las Vegas í fylgd lögreglu. AFP

Kahib Nurmagomedov og Conor McGregor hafa báðir verið settir í tímabundið keppnisbann vegna þess sem gekk á eftir bardaga þeirra í UFC aðfaranótt síðasta sunnudags. 

Eins og áhugafólk um UFC þekkir brutust út slagsmál að bardaganum loknum þar sem liðsfélagar kappanna blönduðu sér í málið og útkoman varð heldur slæm auglýsing fyrir UFC sem nýtur mikilla vinsælda víða um heim. 

ESPN greinir frá keppnisbanninu og segir það tímabundið en rannsókn á atburðunum stendur yfir. 

Nurmagomedov átti í útistöðum við mann úr herbúðum McGregor og McGregor virðist hafa slegið mann úr herbúðum Nurmagomedov að fyrra bragði. Nurmagomedov hefur lýst því yfir að fái hans liðsfélagar keppnisbann þá muni hann sjálfur hætta keppni í mótmælaskyni og segir sjónvarpsmyndir og ljósmyndir sýna að McGregor hafi slegið liðsfélaga sinn að fyrra bragði. 

Búist er við niðurstöðu í málinu 24. október. 

mbl.is

Bloggað um fréttina