Gunnar fer í búrið í desember

Kynningarstarfið fyrir bardagann er hafið.
Kynningarstarfið fyrir bardagann er hafið.

Gunnar Nelson mun mæta Alex „Cowboy“ Oliveira á UFC-bardagakvöldi í Toronto í Kanada hinn 8. desember samkvæmt fréttatilkynningu sem barst í kvöld. 

Oliveira er Brasilíumaður og í 13. sæti á styrkleikalista UFC í veltivigt. Gunnar er í 14. sæti á listanum og fyrirfram má því búast við jafnri viðureign. Oliveira er þrítugur eins og Gunnar og hefur barist tuttugu og sjö sinnum á sínum atvinnumannsferli en Gunnar tuttugu sinnum.

Verður þetta fyrsti bardagi Gunnars eftir að hann tapaði fyrir Argentínumanninum Santiago Ponzinibbio í júlí 2017 og hefur hann því ekki barist í langan tíma. Sveið mörgum stuðningsmönnum Gunnars sú niðurstaða þar sem Argentínumaðurinn sást pota í auga Gunnars á ljósmyndum og sjónvarpsmyndum frá keppninni. 

„Ég er búinn að vera bardagaklár í talsverðan tíma núna og það eina sem hefur vantað er andstæðingur og dagsetning. Við vorum búnir að pressa fast á UFC til að fá bardaga fyrir áramót og ég var í raun búinn að segja þeim að ég væri tilbúinn að mæta hverjum sem er. Það myndi ekki skipta mig neinu hvort andstæðingurinn yrði sjálfur heimsmeistarinn eða einhver nýgræðingur,“ er haft eftir Gunnari í fréttatilkynningu og honum líst vel á andstæðinginn.

„Ég er því virkilega ánægður að fá Alex Oliveira. Hann er alvörubardagamaður sem er búinn að sanna að hann á heima á meðal þeirra bestu, m.a. með sigri á fyrrverandi UFC-veltivigtarmeistara. Hann er fyrir ofan mig á styrkleikalistanum í augnablikinu en ég mun gera mitt besta til að svo verði ekki mikið lengur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert