Gunnar ætlar að aðstoða McGregor

Gunnar Nelson og Conor McGregor eru miklir mátar.
Gunnar Nelson og Conor McGregor eru miklir mátar. Ljósmynd/Instagram-síða Conor McGregor

Fari svo að Khabib Nurmagomedov og Conor McGregor mætist á nýjan leik í UFC, ætlar Gunnar Nelson að aðstoða McGregor við að gera sig kláran í bardagann. Khabib og McGregor mættust fyrr á árinu og hafði Khabib þá betur með hengingu. 

McGregor leit ekki vel út í gólfinu í þeim bardaga, en þar er Gunnar sérfræðingur. Gunnar vildi aðstoða McGregor fyrir bardagann gegn Khabib, en gat það ekki sökum hnémeiðsla. Síðan þá er Gunnar búinn að jafna sig á meiðslunum og vinna Alex Oliveira. 

„Ég gat ekki verið með honum út af hnénu á mér. Ég var ekki að æfa þegar hann fór af stað með sínar æfingabúðir. Ég gat ekki gert mikið, en Conor virtist vera með gott teymi í kringum sig eins og alltaf. Eftir bardagann fannst mér eins og ég hafi átt að vera þarna," sagði Gunnar í samtali við MMAFighting.com.

„Ég hefði aðeins getað verið með honum í lok æfingabúðanna. Það var of seint. Ég ætla að vera með honum ef þeir mætast aftur, það er klárt," sagði Gunnar Nelson. 

mbl.is