Ætlar að vinna Gunnar og fá titilbardaga

Leon Edwards í bardaga við Donald Cerrone.
Leon Edwards í bardaga við Donald Cerrone. AFP

Gunnar Nelson keppir á UFC-bardagakvöldinu í London annað kvöld. Hann mætir Bretanum Leon Edwards í mikilvægum bardaga upp á framtíð Gunnars í veltivigtinni. Gunnar er búinn að vinna átta af ellefu bardögum sínum í UFC og Edwards átta af tíu bardögum. 

Gunnar er einn besti glímumaðurinn í samtökunum, á meðan Edwards er meiri hnefaleikamaður. Edwards hefur hins vegar ekki áhyggjur af Gunnari, fari bardaginn í glímu og í gólfið. 

„Ég hlakka til að sýna heiminum hversu góður ég er. Ég get alveg unnið hann í gólfinu og það væri gaman að hengja hann. Mér líður vel og ég er tilbúinn," sagði Edwards, sem er búinn að vinna sex síðustu bardaga sína. 

„Þegar ég er búinn að vinna Gunnar á ég skilið að mæta sigurvegaranum í aðalbardaganum (Darren Till eða Jorge Masvidal). Það ætti að vera næsta skref. Vonandi getum við barist í júlí og ef ég vinn þá, vil ég fá titilbardaga," bætti Edwards kokhraustur við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert