„Minnir á stemninguna fyrir EM í Frakklandi“

Gunnar Nelson er klár í slaginn.
Gunnar Nelson er klár í slaginn. Ljósmynd/UFC

Þrátt fyrir að andstæðingur Gunnars Nelson í UFC-bardaga kvöldsins í London sé Breti búast Íslendingar á svæðinu við því að Gunnar hljóti mikinn stuðning. Hann sé vinsæll meðal Breta og auk þess er fjöldi Íslendinga kominn út til að styðja sinn mann.

„Það er geggjuð stemning,“ segir Grímur Óli Grímsson við mbl.is, en hann verður einn af mörgum Íslendingum í O2-höllinni í kvöld. Grímur og 15 félagar hans sátu á veitingastað við höllina síðdegis þar sem þeir voru að „gíra sig upp“ fyrir kvöldið. 

Gunnar vinsæll í London

Grímur býr í Hollandi og flaug þaðan til London í gær þar sem hann hitti félaga sína. Hann segir að þeir hafi haft á orði að það væru áberandi margir í síðdegisflugunum frá Íslandi til London á leið á bardagana.

„Þeir sögðu að þetta minnti á stemninguna fyrir EM í Frakklandi,“ segir Grímur.

„Það er spurning hvernig stemningin verður. Gunnar hefur alltaf verið vel liðinn í Englandi en síðast þegar hann keppti í UFC í London var hann vinsæll og ég er ekki frá því að margir heimamenn muni hvetja Gunnar í kvöld,“ segir Grímur en andstæðingur kvöldsins, Bretinn Leon Edwars, er ógnarsterkur.

Grímur rakst á Benedikt Þorgeirsson og Samúel Þóri Drengsson á …
Grímur rakst á Benedikt Þorgeirsson og Samúel Þóri Drengsson á veitingastað við O2-höllina, sem munu styðja Gunnar í kvöld. Ljósmynd/Aðsend

Mikið undir í kvöld

Grímur segir það lýsandi fyrir vinsældir Gunnars í London að mikil fagnaðarlæti hafi brotist út þegar hann var vigtaður í gær, þrátt fyrir að vera á „útivelli“.

Edwards er taplaus í sex bardögum en síðast tapaði hann árið 2015 fyrir Kamaru Usman, sem er veltivigtarmeistari í UFC. „Gunnar er á þeim tímapunkti á ferlinum að ég held að ef hann ætli að gera atlögu að titlinum verði hann að vinna bardagann. Það er möguleiki ef þetta klikkar en það verður erfitt. Það er því mikið undir,“ segir Grímur.

Gunnar er kominn til baka eftir tapið gegn Ponzinibbio,“ segir Grímur en sá potaði eftirminnilega í augun á Gunnari í bardaga þeirra árið 2017. „Ef hann tekur bardagann í kvöld er hann í góðum málum með að fá topp fimm andstæðing.“

Leon Edwards í bardaga við Donald Cerrone.
Leon Edwards í bardaga við Donald Cerrone. AFP

„Verður raunverulegt þegar Gunnar labbar í hringinn“

Spurður hvort Edwards virki kokhraustur fyrir bardagann svarar Grímur því játandi en segir hann þó ekki mikið fyrir að rífa kjaft. „Hann er samt klárlega „cocky“. Mig minnir að hann hafi sagt að fólk ætti ekki að vera hissa ef hann nær að sigra Gunnar með hengingu. Þetta er mjög góður andstæðingur sem er ekki með neinn áberandi veikleika.“

Helsti styrkleiki Gunnars er að ná mönnum í gólfið og klára þá þar. Grímur segist vera alveg 100% viss um að Gunnar geti klárað Edwards í gólfinu. „Ég held og vona að þetta verði góður bardagi. Það er gott kvöld í vændum,“ segir Grímur.

„Maður sér íslenska fánann í mannhafinu og það er mikil eftirvænting í loftinu. Þetta verður fyrst raunverulegt þegar Gunnar labbar inn í hringinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert