Sunna úr leik eftir naumt tap

Sunna Rannveig mátti þola tap.
Sunna Rannveig mátti þola tap. Ljósmynd/Baldur kristjánsson

Sunna Rannveig Davíðsdóttir féll úr leik í 1. umferð á Phoenix Rising-bardagakvöldinu í Kansas í Bandaríkjunum í kvöld. Sunna tapaði með minnsta mun á móti Kailin Curran eftir klofna dómaraákvörðun.

Keppni fer þannig fram að keppendur mætast í einni lotu og sigurvegarinn fer áfram í næstu umferð og sá sem tapar fellur úr leik. Curran fór áfram í undanúrslit með sigrinum. 

Tveir dómarar dæmdu Curran 10:9-sigur og einn dæmdi Sunnu sigur, 10:9. Það dugði hins vegar ekki til. Sigurvegari mótsins verður strávigtarmeistari Invicta-bardagasamtakanna.

Sunna var tvisvar slegin niður á meðan þær stóðu, en var sterkari þegar bardaginn fór í gólfið. Hún náði Curran tvisvar niður og náði góðum höggum og var nálægt því að vinna með tæknilegu rothöggi, en það tókst ekki. 

Fyrir bardagann hafði Sunna unnið alla þrjá bardaga sína sem atvinnumaður og var því um fyrsta tap Sunnu að ræða. 

mbl.is