McGregor snýr aftur

Connor McGregor snýr aftur í búrið í janúar á næsta …
Connor McGregor snýr aftur í búrið í janúar á næsta ári. AFP

MMA-bardagakappinn Conor McGregor snýr aftur í UFC 18. janúar næstkomandi en þetta staðfesti hann á blaðamannafundi í Moskvu í dag. McGregor mun berjast á bardagakvöldi í Las Vegas en Írinn hefur ekki stigið fæti inn í búrið síðan hann tapaði fyrir Rússanum Khabib Nurmagomedov í október á síðasta ári.

Írinn ætlar sér stóra hluti á næsta ári og stefnir á þrjá bardaga. McGregor vill fá annan bardaga gegn Nurmagomedov sem er núverandi heimsmeistari í léttivigt. Þá vill McGregor mæta honum á heimavelli Rússans í Rússlandi en bardagi þeirra Nurmagomedov og McGregors í október 2018 var einn sá tekjuhæsti í sögu UFC.

UFC mun að öllum líkindum tilkynna um næsta andstæðing McGregors á næstu vikum en sumir töldu að Írinn kjaftfori væri hættur í UFC og ætlaði sér að leggja bardagahanskana á hilluna. „Þið verðið að spyrja UFC hver næsti andstæðingur minn verður því mér er skítsama,“ sagði McGregor meðal annars á blaðamannafundinum í morgun.

mbl.is