Sakar McGregor um athyglissýki

Conor McGregor tilkynnti í gær að hann væri hættur að …
Conor McGregor tilkynnti í gær að hann væri hættur að berjast. AFP

Joe Rogan, talsmaður UFC, hefur sakað bardagakappann Conor McGregor um athyglissýki eftir að sá síðarnefndi tilkynnti það í gær að hann væri hættur að berjast. McGregor, sem er 31 árs, sendi frá sér óvænta tilkynningu í gær um það að hann væri hættur en þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Írinn kveðst vera hættur að berjast.

McGregor var pirraður út í forráðamenn og hversu litla athygli UFC 250 var að fá í fjölmiðlum. Honum fannst bardagasamtökin ekki vera að gera nóg til þess að auglýsa viðburðinn og ákvað því að hætta. „Ég kaupi það ekki í eina sekúndu að Conor McGreogor sé hættur,“ sagði Rogan í samtali við ESPN en þetta er í þriðja sinn sem hann tilkynnir um að hanskarnir séu komnir á hilluna.

„Það eina sem hann er að reyna gera er að fá fólk til þess að tala um sjálfan sig. Það er ekki til betri leið til þess að fá umtal og hann veit það. Það sem hann gerði var að hann stal allri athyglinni af bardagakvöldinu með því að láta allt umtal snúast algjörlega um sig,“ bætti Rogan við en McGregor átti meðal annars að berjast við þá Anderson Silva, Jorge Masvidal og Khabib Nurmagomedov á árinu.

mbl.is