Hættur eftir fráfall föður síns

Khabib Nurmagomedov hefur lagt bardagahanskana á hilluna.
Khabib Nurmagomedov hefur lagt bardagahanskana á hilluna. AFP

Rússneski MMA-bardagakappinn Khabib Nurmagomedov er hættur keppni en þetta tilkynnti hann eftir að hafa varið heimsmeistaratitil sinn í léttvigt í Forum Arena í Abú Dabí.

Nurmagomedov vann nokkuð þægilegan sigur gegn Bandaríkjamanninum Justin Gaethje um helgina en þetta var 29. bardagi Rússans og hans 29. sigur á ferlinum.

Þetta var í þriðja sinn sem Nurmagomedov tekst að verja heimsmeistaratitil sinn í léttvigt en hann vann titilinn í fyrsta sinn árið 2018.

„Þetta var minn síðasti bardagi á ferlinum,“ sagði Nurmagomedov sem missti föður sinn fyrr á þessu ári eftir að hann hafði greinst með kórónuveiruna.

„Það er ekki séns að ég komi hingað aftur án föður míns. Þegar UFC bað mig um að berjast við Justin þá ræddi ég við móður mína í þrjá daga samfleytt.

Hún vildi ekki að ég myndi berjast án föður míns sem hefur alltaf staðið þétt við bakið á mér í hringnum og ég lofaði henni að þetta væri minn síðasti bardagi,“ bætti Nurmagomedov en faðir hans hefur verið einn af hans aðalþjálfurum frá því hann hóf feril sinn í blönduðum bardagalistum.

mbl.is