Ótrúleg saga Ngannou – keppir um þungavigtartitilinn í UFC

Francis Ngannou freistar þess að verða þungavigtarmeistari í UFC í …
Francis Ngannou freistar þess að verða þungavigtarmeistari í UFC í nótt. AFP

Francis Ngannou mætir Stipe Miocic í bardaga um þungavigtartitilinn í UFC í blönduðum bardagalistum í nótt. Saga hins kamerúnska Ngannou er lyginni líkust.

Hans ólst upp við mikla fátækt í smábnum Batie í Kamerún. Hann byrjaði 10 ára gamall að moka sand í sandnámu í bænum oggekk tvo tíma fram og til baka í skólann á hverjum degi. Stærstur hluti frítíma hans fór í að moka sand í námunni.

Ngannou fékk mikinn áhuga á boxi eftir að hafa séð myndbönd af Mike Tyson upp á sitt besta. Í Batie var ekkert um hnefaleika og flutti hann því til höfuðborgar Kamerúns, Douala, til að geta boxað. Eftir nokkur ár þar sá hann að hann þyrfti að komast til Evrópu til að ná lengra í boxinu.

22 ára gamall fékk Ngannou nóg af Kamerún og ákvað að leggja af stað í ferðalag til Evrópu þar sem hann ætlaði sér að verða heimsmeistari í boxi.

Evrópuferðin hófst með 12 mánaða göngu frá Kamerún til Marokkó. Á þessu ferðalagi gisti hann í runnum og át upp úr ruslatunnum. Frá Marokkó komst hann til Spánar á fleka þar sem honum var bjargað af Rauða krossinum.

Þar sem Ngannou kom ólöglega til Spánar var hann umsvifalaust handtekinn og færður í gæsluvarðhald í tvo mánuði. Honum var að lokum sleppt úr haldi og komst hann þá loksins til Frakklands eftir 14 mánaða ferðalag. Þetta voru „14 mánuðir í helvíti“ að sögn Ngannou.

Í Frakklandi tók þó engin paradís við þar sem hann bjó á götunni fyrstu mánuðina. „Ég var kannski heimilislaus en það var ekki erfitt. Það var kalt á haustin í París en ég var svo fullur af eldmóði að vera í landi tækifæranna. Ég var ánægður að ég skyldi vera að elta drauma mína. Þrátt fyrir að ég hafi sofið í almenningsgörðum og hefði ekki efni á mat var ég frjáls. Miðað við Marokkó var þetta eins og fimm stjörnu hótel.“

„MMA, hvað er það?“

Á fyrsta degi sínum í París var Ngannou með þrjú markmið; að verða sér úti um gistingu, fá eitthvað að borða og finna boxklúbb. Hann rambaði inn á boxklúbb og þrátt fyrir stórar yfirlýsingar var honum vel tekið enda ekki á hverjum degi sem maður vaxinn eins og Ngannou rak nefið inn í klúbbinn. Hann æfði vel en flestir í klúbbnum sögðu honum að fara í MMA, blandaðar bardagalistir.

„MMA? Hvað er það?“ spurði Ngannou. Hann hafði aldrei heyrt um blandaðar bardagalistir og hafði satt best að segja engan áhuga á því. Hann vissi þó að það væri erfitt að fá tækifæri í boxinu í Frakklandi þar sem þurfti að þekkja rétta fólkið til þess að fá framgöngu. Ngannou ákvað því að prófa blandaðar bardagalistir á meðan hann var að komast að í boxinu.

Eftir að hafa verið í frekar litlum MMA-klúbbi í París rambaði hann inn í MMA Factory þar í borg. Þar kynntist hann Fernand Lopez og náðu þeir strax vel saman. Lopez bauð Francis að sofa á dýnunum í MMA Factory og gaf honum tösku fulla af æfingafötum.

Eftir að hafa æft blandaðar bardagalistir í aðeins þrjú ár fékk hann samning við UFC með ekki nema sex bardaga að baki í greininni. Þar var hann fljótur að láta til sín taka og fékk titilbardaga tveimur árum síðar.

Miocic sigraði hann mjög örugglega í titilbardaga í janúar 2018 en Ngannou hefur síðan þá unnið sig aftur upp í titilbardaga með fjórum sigrum í röð, allt með rothöggum í fyrstu lotu á samanlagt 2:45 mínutum.

Stærsta markmiðið er þó að verða meistari í þungavigt í UFC með því að hefna fyrir tapið gegn Miocic fyrir þremur árum, sem yrði sannarlega magnaður kafli í ótrúlegri sögu Ngannou.

Nánar má lesa um sögu Francis Ngannou á MMAfréttir.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert